Efnahagsyfirlit - 24.11.2016
Efnahagsyfirlit VR - Byrði húsnæðiskostnaðar óviðunandi fyrir einstaklinga í leiguúrræði
Um 16% heimila í einhvers konar úrræði búa við of háan húsnæðiskostnað og raðast Ísland ofarlega á þeim lista meðal Evrópulanda. Hið sama gildir þó ekki um aðra leigjendur eða eigendur húsnæðis. Þar er hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað í takt við önnur Evrópulönd eða í lægri kantinum. Þetta er meðal þess kemur fram í nýjasta Efnahagsyfirliti VR. Yfirlitið er gefið út í tengslum við stjórnarfundi VR og er þar fjallað um helstu lykiltölur í íslensku efnahagslífi.
Mikill aðflutningur erlendra ríkisborgara
Aðflutningur erlendra ríkisborgara, umfram brottflutning, hafa aukist töluvert seinasta árið á sama tíma og dregið hefur úr brottflutningi íslenskra ríkisborgara umfram aðflutta. Þetta er enn eitt merki þess að nokkur uppsveifla er hafin í efnahagslífinu og auðvelt að fá vinnu. Þessum mikla innflutningi fylgja þó aukaverkanir sem birtast í meiri hækkun fasteignaverðs en ella.
Verð á bensíndælunni og heimsmarkaðsverð
Heimsmarkaðsverð sveiflast gífurlega mikið og er 2-3% hækkun eða lækkun milli daga ekki óalgeng. Miðað við verð á bensíndælunni á Íslandi í dag myndi það þýða 3-6 krónu sveifla dag frá degi. Verðið á bensíndælunni á Íslandi sveiflast þó mun minna og er nokkuð stöðugt. Miðað við það stutta tímabil sem er til skoðunar er ekki að sjá að íslensku olíufélögin hækki verð um leið og heimsmarkaðsverð hækkar en haldi verði háu þegar heimsmarkaðsverð lækkar.
Spenna í íslenska hagkerfinu
Flest allir mælikvarðar benda til þess að nokkur uppsveifla sé hafin í íslensku efnahagslífi. Einn af þeim mælikvörðum sem gefið hefur góða mynd af ástandinu er svokölluð Byggingakranavísitala. Sú vísitala mælist nú álíka há og 2007/2008. Það sem hins vegar aðskilur þessa uppsveiflu frá þeirri er að ekki er enn farið að bera á aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Án mikillar skuldsetningar er auðveldara að taka við næsta efnahagsáfalli.
Ísland og Svíþjóð hafa unnið sig út úr kreppunni
Mæling á umfangi efnahagsstarfseminnar sýnir að af Norðurlöndunum hafa Ísland og Svíþjóð unnið sig út úr kreppunni. Landsframleiðsla á mann hefur náð fyrri hæðum í báðum löndum. Slíkt er ekki hægt að segja um Danmörku, Finnland og Noreg. Þá er landsframleiðsla á mann enn um 20% lægri en hún var árið 2007 í Grikklandi en tæplega 30% hærri í Póllandi.
Atvinnuleysi á Íslandi er lágt þó enn mælist nokkuð „falið“ atvinnuleysi
Hefðbundin skilgreining á atvinnuleysi sýnir að staðan í dag er áþekk árunum fyrir hrun. Á þriðja ársfjórðungi 2016 mældist atvinnuleysi aðeins um 2,5% á Íslandi. Líkt og áður hefur verið bent á í Efnahagsyfirliti VR segir hefðbundin skilgreining á atvinnuleysi ekki alla söguna. Á sama tíma og hefðbundin skilgreining bendir til þess að atvinnuleysi sé 2,5% þá sýna tölur að „falið“ atvinnuleysi sé 7%. Í samanburði við önnur Norðurlönd er þó staðan á íslenskum vinnumarkaði mun betri. Í það minnsta sé litið til hefðbundinnar skilgreiningar á atvinnuleysi.