Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-2.jpg

Efnahagsyfirlit - 28.09.2018

Efnahagsyfirlit VR - 72 þúsund króna munur á greiðslubyrði

Greiðslubyrði 35 milljóna króna húsnæðisláns á Íslandi er 72 þúsund krónum hærri á mánuði en á hinum Norðurlöndunum, sé miðað við óverðtryggð lán til 30 ára. Þetta má sjá í umfjöllun í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

Laun á Íslandi þurfa að vera umtalsvert hærri en í samanburðarlöndunum til að standa undir hárri greiðslubyrði lána. Í Efnahagsyfirliti VR eru borin saman vaxtakjör á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi eru vextir óverðtryggðra lána um 5,75% samanborið við 2,2% að meðaltali í nágrannalöndunum. Munurinn sést best þegar skoðað er hver launin þurfa að vera til að borga af slíku húsnæðisláni; á Íslandi þurfa launin að vera 620 þúsund krónur til að greiða af láni með 5,75% vöxtum og eiga samt u.þ.b. 219 þúsund krónur eftir í buddunni. Ef vextir væru 2,2% dygðu laun uppá 500 þúsund krónur á mánuði til að eftir standi sama upphæð.

Þá má sjá í yfirlitinu umfjöllun um breytingar á væntingavísitölu Gallup en hún bendir til þess að brúnin sé að þyngjast á Íslendingum, í ágúst fór vísitalan undir 100 í fyrsta skipti í þrjú ár en það þýðir að meðal svarenda í ágúst voru fleiri neikvæðir en jákvæðir. Þá er í yfirlitinu einnig fjallað um danska rannsókn á launamun kynjanna, þróun í ferðamannaiðnaðinum og fjölgun félagsmanna með erlent ríkisfang.

Sjá Efnahagsyfirlit VR, á pdf.