Efnahagsyfirlit - 11.02.2016
Bati á vinnumarkaði skilar sér til 55+
Bati á vinnumarkaði var umtalsverður árið 2015, sé miðað við atvinnuleysi eða hlutfall starfandi. Sá bati virðist skila sér til elsta launahópsins, hlutfall starfandi á aldrinum 55 – 74 ára er nú með því hæsta sem sést hefur árum saman. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta efnahagsyfirliti VR. Í yfirlitinu fjallar hagfræðingur VR um helsti lykiltölur íslensks efnahagslífs og rýnir í horfurnar framundan. Hér að neðan er stiklað á stóru í því sem fram kemur í yfirlitinu.
Verðbólgan á fyrsta ársfjórðungi stefnir í að vera 1,9% sem er töluvert undir því sem Seðlabankinn gerði ráð fyrir í spá sinni í nóvember á síðasta ári en sú spá hljóðaði upp á 2,7%. Nýjasta spá bankans gerir þó ráð fyrir 1,9% verðbólgu líkt og spár viðskiptabankanna. Verðbólgan í janúar mældist 2,1% og var, líkt og áður, keyrð áfram af húsnæðisverði en án húsnæðis mældist hún aðeins 0,6%.
Nokkuð hefur færst í aukana að fjallað sé um innlenda verðbólgu í tengslum við launahækkanir. Innlend verðbólga er hinsvegar illmælanleg og hafa skattabreytingar og gengi krónunnar töluverð áhrif á þá mælingu. Hækkunina árið 2015 á vísitölunni sem liggur til grundvallar innlendrar verðbólgu má rekja til skattahækkana og erfitt er að sjá merki um áhrif launahækkana á innlenda verðbólgu eftir að tekið er tillit til skattahækkana.
Bati á vinnumarkaði - til yngri og eldri launamanna
Batinn á vinnumarkaði hefur verið góður en hefur þó skilað sér misvel eftir aldurshópum og kynjum. Hlutfalls starfandi hefur aukist talsvert frá hruni hjá aldurshópnum 16-24 ára og meðal kvenna í þeim aldurshópi hefur það ekki mælst hærra í rúman áratug. Sama má segja um elsta hópinn, 55 – 74 ára. Hlutfall starfandi kvenna á þeim aldri hefur ekki mælst hærra á tímabilinu 2003 – 2015 og afar lítið vantar uppá að karlar nái hámarkinu 2006. Hlutfall starfandi lýsir fjölda þeirra sem eru í fullu- eða hlutastarfi sem hlutfalli af mannfjölda á sama aldri.
Falið atvinnuleysi var 8% af mannfjölda árið 2015 á meðan atvinnuleysi samkvæmt opinberri skilgreiningu var 3,3% af mannfjölda. Búferlaflutningar árið 2015 eru í litlu samræmi við hagvöxt og atvinnuleysi þó tölur um falið atvinnuleysi gætu skýrt hluta þeirra. Minnkandi aðflutningur og vaxandi brottflutningur er sjáanlegur hjá öllum aldurshópum.
TiSA og gengismálin til umræðu
Ísland er aðili að TiSA samningaviðræðunum um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum. Mikil leynd hefur hvílt yfir viðræðunum en um mitt seinasta ár birti Wikileaks leyniskjöl tengdum viðræðunum. Alþjóðasamtök starfsmanna í almannaþjónustu hafa gagnrýnt viðræðurnar harðlega og segja þær vísvitandi tilraun til auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það.
Í yfirlitinu er einnig fjallað um breytingar á gengi krónunnar en ljóst er að gengisveiking og gengisstyrking gjaldmiðilsins hafa ekki sömu áhrif á verðlag. Þetta sýna tölfræðirannsókn sem og svör fyrirtækja um verðlagningu í kjölfar gengisstyrkingar og -veikingar.