Vr Fanar 7

Almennar fréttir - 13.06.2024

Yfirlýsing stjórnar VR um hópuppsagnir

Í ljósi hópuppsagna nú á vordögum vill stjórn VR árétta eftirfarandi: Uppsögn og missir starfs er alvarlegur hlutur fyrir einstakling og fjölskyldu. Að missa lífsviðurværi sitt getur leitt til fjárhagsvanda sem erfitt er að vinda ofan af auk þess sem starfsmissi fylgir andleg vanlíðan. Það er því ábyrgðarhluti hjá stjórnendum fyrirtækja að láta fólk fara og skal slíkt ávallt vera síðasti kostur. Fyrirtæki þurfa að haga fjárfestingum sínum með þeim hætti að starfsfólk þurfi ekki að borga fyrir þær með framfærslumissi. Sé hagræðingar þörf skal leita annarra leiða, meðal annars með endurskoðun á bónus- og kaupaukakerfum, arðgreiðslum og öðrum fyrirgreiðslum til stjórnenda og forsvarsfólks fyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var 441 einstaklingi sagt upp störfum í hópuppsögnum í maímánuði. Þar af voru a.m.k. 55 félagar í VR og ber þar hæst hópuppsögn hjá Icelandair. VR veitir félagsfólki sem missir vinnuna í hópuppsögn alla þá þjónustu og aðstoð sem unnt er.

Um hópuppsagnir gilda sérstök lög og er markmið þeirra m.a. að leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka í hópi starfsfólks sem fyrir þeim verður. Upplýsa skal trúnaðarmann eða fulltrúa starfsfólks um fyrirhugaðar hópuppsagnir og rökstuðning fyrir þeim og veita viðkomandi færi á að koma sjónarmiðum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin. Dæmi eru um að þetta mikilvæga samráðsferli sé ekki tekið nógu alvarlega og að fyrirtæki hlusti ekki á réttmæt sjónarmið sem fram koma frá fulltrúum starfsfólks. Stjórn VR áréttar mikilvægi þess að unnið sé eftir anda laganna, reynt að koma í veg fyrir hópuppsagnir og starfsmissi launafólks og að hópuppsögnum sé aldrei beitt af léttúð.

12. júní 2024
Stjórn VR