Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Logo 2 (1)

Almennar fréttir - 12.03.2020

Yfirlýsing frá stjórn VR vegna COVID-19 veirunnar

Stjórn VR skorar á stjórnvöld að hefja tafarlaust vinnu við að bregðast við mögulegum áhrifum niðursveiflunnar á fjárhag heimilanna og tryggja að sömu mistökin og gerð voru eftir hrun endurtaki sig ekki.

Stjórn VR fagnar því að stjórnvöld grípi til mótvægisaðgerða vegna COVID-19 veirunnar en gerir alvarlegar athugasemdir við það að hvergi er að finna mótvægisaðgerðir fyrir félagsmenn okkar og heimilin. VR skorar á stjórnvöld að tryggja launagreiðslur almenns launafólks t.d. með tímabundnum aðgerðum frá Atvinnuleysistryggingarsjóði.

Ein stærstu hagstjórnarmistökin eftir bankahrunið 2008 var að veita ekki venjulegu fólki raunverulegan sveigjanleika til að takast á við greiðslufall vegna atvinnumissis eða stökkbreytingu lána. Aðgerðarleysi og þjónkun stjórnvalda við fjármálakerfið endaði með skelfilegum afleiðingum sem fólk er jafnvel að berjast við enn í dag, tæpum tólf árum seinna. Nú gæti svo farið að niðursveiflan sem COVID- 19 veiran gæti haft í för með sér væri atvinnuleysi á borð við það sem hér varð eftir hrun, ef verstu spár ganga eftir. Hlýtur sú spurning að vakna hvort stjórnvöld ætli enn og aftur að slá skjaldborg um fyrirtækin og fjármálakerfið en skilja fólkið í landinu eftir óvarið. Tryggja verður húsnæðisöryggi almennings t.d. með frystingu afborgana húsnæðislána og sérstökum aðgerðum fyrir fólk á leigumarkaði.

Einnig skorar VR á Seðlabankann að standa við sitt lögbundna hlutverk að halda verðbólgu lágri. Gengi krónunnar hefur verið að veikjast sem að óbreyttu mun leiða af sér verðbólgu og því skorar VR á Seðlabankann að nýta ríflegan gjaldeyrisforða til að halda gengi íslensku krónunnar stöðugu.

Stjórn VR