Almennar fréttir - 14.03.2024
Yfirlýsing frá samninganefnd VR vegna undirritunar kjarasamninga
Samninganefnd VR undirritaði í nótt kjarasamninga til fjögurra ára við Samtök atvinnulífsins. Samninganefnd telur að í viðræðum undangenginna daga hafi fundist ásættanleg niðurstaða fyrir aðalkjarasamning VR miðað við þann ramma sem var búið að sníða í samningum við önnur stéttarfélög og landssambönd. Meðal atriða sem áunnust voru áfangasigrar í átt að 30 daga orlofsrétti, vinnustaðaskírteini fyrir verslanir sem auðvelda eftirlit með mögulegum réttindabrotum og jákvæðar breytingar í starfsmenntamálum. Launaliðurinn er að mestu sambærilegur þeim samningum sem á undan hafa komið og gert er ráð fyrir 23.750 króna hækkun að lágmarki á ári hverju og hækkunum á taxtalaun og prósentuhækkanir fyrir efri millitekjuhópa. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað munu einnig geta bætt hag launafólks, sérstaklega barnafólks, og ef markmið um að ná niður verðbólgu og vöxtum ganga eftir mun samningurinn til lengri tíma hafa jákvæð áhrif fyrir flest vinnandi fólk.
Samninganefnd áréttar að ábyrgðin á verðstöðugleika og verðbólgu hvílir nú alfarið á herðum atvinnurekenda og stjórnvalda. Á þeim liggur sú skylda að halda verðlagi niðri og koma í veg fyrir hækkandi verðbólgu. Stjórnvöld þurfa að standa við gefin fyrirheit og takast af alvöru á við vandann á húsnæðismarkaði en húsnæðiskostnaður er að sliga launafólk bæði á eignamarkaði og leigumarkaði. Samninganefnd hafnar alfarið hugmyndum um að fjármagna aðgerðir tengdar kjarasamningum með niðurskurði á opinberri þjónustu, aukinni gjaldtöku eða almennum skattahækkunum. Vísar samninganefnd í því sambandi til ítarlegra tillagna ASÍ um fjármögnun aðgerða, sem jafnframt myndu stuðla að auknum jöfnuði.
Samninganefnd fordæmir það offors sem Samtök atvinnulífsins sýndu af sér gagnvart fámennum hópi láglaunafólks við farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair í Keflavík. Fremur en sitja að samningaborðinu með fulltrúum þessa hóps og viðræðunefnd VR og leita lausna, ákvað SA að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann gegn tugum þúsunda félagsfólks VR. Eftir það settust samtökin aldrei niður með VR og trúnaðarmanni starfsfólks Icelandair heldur fólu ríkissáttasemjara að ganga á milli hópa. Í innanhússmiðlunartillögu ríkissáttasemjara fólust ákveðnir áfangasigrar fyrir starfsfólkið, en eftir situr þessi forkastanlega aðgerð að setja á þeirra herðar ábyrgð á mögulegu verkbanni gegn tugum þúsunda félagsmanna VR. Systursamtök VR í nágrannalöndunum hafa sent félaginu stuðnings- og baráttukveðjur. Það er áríðandi að íslensk verkalýðshreyfing rísi upp sameinuð gegn tilraunum SA til að kúga launafólk með þessum hætti og vega að verkfallsrétti þeirra.
Undirritaðir kjarasamningar ganga nú til atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks í VR. Félagsfólk er hvatt til að kynna sér samninginn, mæta til félagsfundar sem haldinn verður mánudaginn 18. mars nk. og taka afstöðu í atkvæðagreiðslunni.
14. mars 2024