Almennar fréttir - 10.03.2022
VR veitir flóttafólki frá Úkraínu neyðaraðstoð
Stjórn VR fordæmir innrás Rússlands í frjálst og fullvalda ríki Úkraínu sem er skýrt brot á alþjóðalögum og við styðjum allar friðsamlegar aðgerðir sem bundið geta enda á stríðið.
VR mun tafarlaust bregðast við því neyðarástandi sem þessi innrás og stríð hefur orsakað hjá úkraínsku þjóðinni og svarar ákalli stéttarfélaga í Úkraínu um hjálp. VR mun leggja sín lóð á vogarskálarnar við móttöku úkraínsks flóttafólks til Íslands með fjárstuðningi og með því að útvega bráðabirgðahúsnæði. Um leið vill stjórn VR skora á íslensk stjórnvöld að gera gangskör að verulegum úrbótum í húsnæðismálum hér á landi en félagið mun hlaupa undir bagga með flóttafólkinu með því að bjóða afnot af orlofshúsum félagsins í Ölfusborgum sem eru fjögur talsins.
Auk þessa mun félagið styrkja hjálparstarf vegna flóttafólksins frá Úkraínu um eina evru fyrir hvern félagsmann eða um 5.600.000 kr.
Stjórn VR skorar jafnframt á önnur stéttarfélög hér á landi að leggja sitt af mörkum því neyðin er mikil og með sameiginlegu átaki er hægt að áorka miklu til góðs.
Samþykkt af stjórn VR 9. mars 2022