Almennar fréttir - 19.05.2021
VR styður dómsmál Neytendasamtakanna vegna breytilegra vaxta
Stjórn VR samþykkti á fundi sínum 13. janúar 2021 að styðja Neytendasamtökin (NS) í dómsmáli þeirra vegna breytilegra vaxta hjá bönkunum og vera þannig helsti bakhjarl samtakanna í málaferlunum.
NS vilja láta reyna á það hvort hvort skilmálar lána hjá bönkunum með breytilega vexti standist lög. Það er þeirra mat að fengnu lögfræðiáliti að neytandi sem gerir samning eigi að geta vitað forsendur allra breytinga sem verði, svo sem vaxtabreytinga á láni en bankar taka ákvörðun um vexti á sínum eigin forsendum. Skilmálar velflestra lána eru því ólöglegir að mati Neytendasamtakanna, þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar eru verulega matskenndar og ógegnsæjar og þess vegna ekki hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar. Neytendasamtökin ætla að stefna bönkunum og leita nú að lántökum sem vilja fara með mál sín fyrir dóm.
Mjög miklir hagsmunir eru í húfi fyrir félagsmenn VR sem og aðra landsmenn enda um marga milljarða króna að tefla og því mun VR standa fast við bak samtakanna í þessu máli.