Almennar fréttir - 14.09.2020
VR styður baráttuna gegn kynþáttamisrétti
Eftirfarandi er yfirlýsing sem stjórn VR samþykkti í dag, föstudaginn 14. ágúst 2020:
VR vill minna á að að verkalýðshreyfingin byggir á grunni þar sem tekin er afstaða gegn hverskonar mismunun. Í því ljósi tekur VR undir með þeim hér á landi sem gagnrýnt hafa misrétti undir merkjum þess að - Líf svartra skipti máli - þar sem kerfisbundið er brotið á réttindum þeirra.
VR vill að það komi skýrt fram að við styðjum af heilum hug baráttuna gegn rasisma og teljum verkalýðshreyfingunni skylt að standa þétt með þeim sem heyja þá baráttu. Rasismi er kerfislægt samfélagsmein um allan heim sem hefur áhrif á félagslegt og efnahagslegt réttlæti og kemur okkur öllum við. Sem stéttarfélag er VR daglega að berjast fyrir réttindum, virðingu og réttlæti til handa félagsmönnum sínum.
Við lítum svo á að allir, óháð uppruna, trú, eða kynferði eigi skilyrðislausan rétt á jafnrétti og réttlæti á vinnumarkaði. Við styðjum því réttlætisbaráttu svartra m.a. með systursamtökum okkar í alþjóðastarfi verkalýðsfélaga gegn hvers konar fordómum og ójafnrétti, því líf svartra skipta máli. Black lives matter.