Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-1.jpg

Almennar fréttir - 21.02.2018

VR stofnar leigufélag

Stjórn VR ákvað á fundi sínum í gærkvöldi, þriðjudaginn 20. febrúar 2018, að stofna leigufélag fyrir félagsmenn VR. Félag sem ekki yrði rekið í hagnaðarskyni. Áður hafði trúnaðarráð félagsins hvatt til þess að slíkt félag yrði stofnað.

Stofnun leigufélagsins er viðbragð félagsins við gríðarlega erfiðum aðstæðum á húsnæðismarkaði á Íslandi í dag og þá einkum á meðal ungs fólks. Framboð leiguhúsnæðis er ekki aðeins takmarkað heldur er leiguverð svo óheyrilega hátt að kalla má ástandið fársjúkt. Öfugt við almenn leigufélög mun leigufélag VR snúast fyrst og fremst um það hvernig hægt sé að hafa leiguna sem lægsta en ekki sem mesta arðsemi.

Áætluð uppsöfnuð þörf á nýjum íbúðum á íslenskum markaði eru 6.000 íbúðir og árleg þörf nýrra íbúða eru 2.200 íbúðir svo augljóst má vera að um neyðarástand er að ræða. Stjórn VR telur það félagslega skyldu sína að bregðast við með einhverjum hætti og leggja þannig eitthvað á vogarskálarnar í þeirri von að slíkt viðbragð verði opinberum aðilum, öðrum félögum, samtökum og sjóðum fyrirmynd og hvatning til að gera eitthvað viðlíka eða koma til samstarfs við VR um frekari verkefni.

Nánari útfærsla á framkvæmdum, úthlutunarreglum, leiguverði o.þ.h. verður í höndum Húsnæðisnefndar VR og munum við færa fréttir af því á þessum vettvangi um leið og eitthvað liggur fyrir.