Undirskrift 1

Almennar fréttir - 07.06.2024

VR og Leiðsögn sameinast

VR og Leiðsögn – félag leiðsögumanna hafa skrifað undir samning um sameiningu félaganna sem mun taka gildi að fullu vorið 2025, að fengnu samþykki aðalfunda félaganna. Með þessari sameiningu stefna bæði félög að því að styrkja stöðu leiðsögufólks á vinnumarkaði og starfsfólks í ferðaþjónustu almennt sem hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár.

VR mun annast rekstur Leiðsagnar fram að sameiningu félaganna samkvæmt rekstrarsamningi og verður Leiðsögn rekið sem sjálfstætt félag þangað til. Þjónusta við félagsfólk Leiðsagnar verður með óbreyttum hætti að stærstum hluta fram að sameiningu, með þeirri undantekningu að sérfræðingar kjaramálasviðs VR munu veita félagsfólki Leiðsagnar alla þjónustu varðandi kjaratengd mál og réttindi þeirra á vinnumarkaði.

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur stækkað ört síðustu ár og við slíkar aðstæður er mikilvægt að til staðar séu sterk og öflug stéttarfélög til að gæta hagsmuna launafólks í greininni. Í Leiðsögn eru um 1.100 leiðsögumenn með fjölbreytta þekkingu og sérhæfingu á því sviði og í VR eru nú þegar nokkur þúsund félagar sem starfa í ferðaþjónustu. Með því að sameina krafta sína vonast VR og Leiðsögn til þess að styrkja stöðu leiðsögufólks og starfsfólks í hinum ýmsu störfum ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Á myndinni eru Halldór Kolbeins, formaður Leiðsagnar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, við undirritun samningsins.