Almennar fréttir - 17.03.2023
VR/LÍV og SVÞ undirrita tímamótasamning um aukna hæfni og þekkingu starfsfólks í verslun og þjónustu
Formaður VR og LÍV, Ragnar Þór Ingólfsson og formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, Jón Ólafur Halldórsson, undirrituðu í gær, fimmtudaginn 16. mars 2023 samstarfssamning um að vinna markvisst að hæfniaukningu í verslun og þjónustu til ársins 2030.
Samningurinn felur í sér þrjú meginmarkmið. Fram til ársins 2030 er stefnt að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu. Námið fari fram með reglulegri sí- og endurmenntun samkvæmt nánari þarfagreiningu sem VR/LÍV og SVÞ vinna að í sameiningu hverju sinni. Markmiðið er að tryggja að starfsfólk fyrirtækja í verslun og þjónustu eigi ávallt kost á því námi sem gerir þeim kleift að takast á við þau verkefni sem vinnumarkaður í örri umbreytingu gerir kröfu um. Einnig að fyrirtæki í verslun og þjónustu hafi á hverjum tíma aðgang að hæfu starfsfólki.
Þá verður sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að 80% þessa hóps búi árið 2030 yfir hæfni B1 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio).
Í þriðja lagi er stefnt að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins. Það felur í sér að viðurkennd vottun eða fagbréf verði veitt fyrir starfsgreinar og hæfnisnám/þjálfun starfsfólks í verslun og þjónustu og að fyrirtæki fái viðurkenningu þegar 80% starfsmanna eru árlega í virkri sí- og endurmenntun.
Með samningnum vilja VR/LÍV og SVÞ sýna að það er sameiginlegt viðfangsefni samtaka launafólks í verslunar- og þjónustugreinum og samtaka atvinnurekenda að tryggja að menntun og hæfni starfsfólks sé í takt við þarfir eins og þær eru hverju sinni.
Sjá samninginn í heild sinni hér.
Nánari upplýsingar veita Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.