Vr Husid 2020 Prent

Almennar fréttir - 17.12.2024

VR gagnrýnir hækkun leikskólagjalda í Fjarðabyggð  

Stjórn VR gagnrýnir harðlega ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að hækka leikskólagjöld frá og með mars á næsta ári og skerða þjónustu við fjölskyldur í sveitarfélaginu. Með þessari ákvörðun fetar bæjarstjórn sveitarfélagsins í fótspor Kópavogsbæjar sem fyrir ári hækkaði leikskólagjöld í bænum og dró úr þjónustu (sjá ályktun stjórnar VR). Þessar ákvarðanir hafa óhjákvæmilega í för með sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir launafólk. 

Breyting á leikskólagjöldum í Fjarðabyggð mun leiða til mikillar hækkunar á gjöldum fyrir fjölmarga foreldra í sveitarfélaginu, hækkun fyrir dagvistun barns í fullri dagvistun nemur tugum prósenta, samkvæmt útreikningum Afls starfsgreinafélags. Þá mun skráningardögum fjölga en fyrir vistun á þeim dögum þurfa foreldrar að greiða aukalega (sjá hér frétt á vef Afls).

Stjórn VR ítrekar að leikskólamál eru kjaramál og skipta launafólk miklu máli. VR styður kjarabætur til leikskólastarfsfólk og telur brýnt að starfsaðstæður þess verði bættar. Stytting leikskóladags barna er af hinu góða, en sú stytting verður að vera samhliða styttingu vinnuvikunnar á hinum almenna vinnumarkaði.  

Stjórn VR mótmælir því að sveitarfélög varpi allri ábyrgðinni á foreldra sem margir eru í þeim sporum að hafa ekki stuðningsnet, kjör eða aðstöðu til að bregðast við. Stjórnin hvetur sveitarfélög til að leita annarra leiða til að koma til móts við breytingar í umhverfi leikskóla en að skerða kjör launafólks og færa baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna mörg ár aftur í tímann.  

Reykjavik 11. desember 2024 
Stjórn VR