Skuli Fogeti

Almennar fréttir - 08.10.2024

VR blaðið er komið út!

Annað tölublað VR blaðsins fyrir árið 2024 er komið út og er því dreift til félagsfólks í pósti.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í grein sinni „Baráttan um Ísland og sjálfstæði þjóðar“ að þjóðin standi enn og aftur frammi fyrir manngerðum hörmungum sem dynji yfir skuldsett heimili og leigumarkaðinn. Skaðinn sé að mestu leyti skeður en spurningin sé hversu mikil fórnin verður.

Í blaðinu er farið yfir helstu atriði nýs kjarasamnings, þar á meðal orlof og sérstaka grein sem kom inn í samninginn er varðar fjarvinnu. Við hvetjum félagsfólk til að kynna sér þessi atriði í blaðinu en einnig er hægt að nálgast kjarasamninginn sjálfan á vef félagsins vr.is.

VR tekur virkan þátt í að auka fjármálalæsi ungs fólks en félagið hefur boðið upp á kynningar um réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum fyrir grunn- og framhaldsskóla í yfir 20 ár.

Fastir liðir eru á sínum stað í blaðinu, leiðari formanns, viðtal við trúnaðarmanninn og krossgátan og nú hefur Sudoku þrautum einnig verið bætt við.

Við minnum félagsfólk á að það getur afþakkað blaðið í prentaðri útgáfu og skráð sig fyrir rafrænu eintaki á Mínum síðum.