Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
C3A7814

Almennar fréttir - 03.06.2021

VR blaðið er komið út!

Annað tölublað VR blaðsins fyrir árið 2021 er komið út og er því dreift til félagsfólks í pósti. Formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, var endurkjörinn formaður VR í mars síðastliðnum en kjörsókn var með mesta móti. Ritstjóri VR blaðsins ræddi við Ragnar Þór um verkefni formanns og stjórnar á nýju kjörtímabili.

Auður Böðvarsdóttir, mannauðssérfræðingur, fjallar um jafnlaunavottunina og þann ávinning fyrirtækis og starfsfólks sem getur hlotist af því að innleiða vottunina, sé rétt að málum staðið. Í blaðinu er rætt við þrjá mannauðsstjóra um fjarvinnu starfsfólks og segja þau okkur frá því hvernig var staðið að hlutunum hjá þeirra fyrirtækjum. Þá spyr Ingrid Kuhlman hvort dagar skrifstofurýma séu taldir í grein sinni um fjarvinnu og fer yfir kosti og áskoranir slíks fyrirkomulags.

Hvað er hægt að gera til að aðlagast betur stafrænum heimi? Svörin er að finna í greininni „Stafræn þróun og starfið mitt“. Í blaðinu er fjallað um atvinnuráðgjöf sem VR hefur boðið félagsfólki sínu undanfarin misseri og farið yfir hvað felst í þjónustunni. Í blaðinu er einnig umfjöllun um Fyrirtæki ársins 2021 en þau voru kynnt á vef félagsins þann 17. maí. Vegna samkomutakmarkana var vinningsfyrirtækjunum ekki boðið öllum saman til móttöku eins og hefð er fyrir. Þess í stað var hverjum stærðarflokki fyrir sig boðið til móttöku um miðjan dag þann 17. maí þar sem niðurstöðurnar voru kynntar, viðurkenningar Fyrirmyndarfyrirtækja afhentar og verðlaunagripurinn fyrir Fyrirtæki ársins. Fastir liðir eru á sínum stað í blaðinu, leiðari formanns, viðtal við trúnaðarmann og krossgátan.

Við minnum félagsfólk á að það getur afþakkað blaðið í prentaðri útgáfu og skráð sig fyrir rafrænu eintaki á Mínum síðum.