Almennar fréttir - 06.01.2017
Vinningshafi í jólaleik VR
VR stóð fyrir jólaleik á Facebooksíðu sinni á dögunum þar sem fólk var beðið að senda inn myndir og sögur af eftirminnilegu jóladóti og VR myndi gefa eina milljón króna til UNICEF í nafni vinningshafans.
Mynd Höllu Kjartansdóttur bar sigur úr býtum en dómnefnd valdi myndina úr þeim þremur myndum sem hlutu flest „like“ og deilingar á Facebook. Vinningsmyndin er 46 ára gömul mynd sem Kjartan Guðjónsson, faðir Höllu, tók af henni við uppáhaldsjólaskrautið hennar en skrautið eignaðist hún aðeins 3 ára gömul á Stöðvarfirði.
Halla afhenti í dag, 6. janúar 2017, UNICEF eina milljón króna í sínu nafni en hjartnæm saga er á bakvið uppáhalds jólaskraut Höllu. Ung þurfti Halla að dvelja á spítala og gátu foreldrar hennar ekki dvalið hjá henni. Eftir sex mánaða sjúkrahúslegu, þar sem Halla missti af jólum með fjölskyldu sinni, fannst foreldrum Höllu nauðsynlegt að halda veglega upp á jólin árið eftir. Halla fékk að velja sér leikfang á jólamarkaði kaupfélagsins á Stöðvarfirði og varð lítið jólatré með ljósaseríu fyrir valinu. Litla jólatréð hefur æ síðan skipað heiðurssess í jólahaldi Höllu og fjölskyldu hennar.
Hér má sjá vinningsmyndina af Höllu og litla jólatrénu og lesa fallegu söguna á bakvið uppáhaldsjólaskrautið.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, var að vonum ánægður með uppátæki VR. „Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn og það góða fordæmi sem VR sýndi með þessu. Við erum snortin yfir öllum þeim fallegu og skemmtilegu sögum sem bárust og sem hjálpuðu sannarlega til við að tendra jólaandann hjá fólki. Auk þess vakti framtakið ómetanlega athygli á neyð barna í Sýrlandi og hvað hægt er að gera til að lina þjáningar þeirra.“
VR þakkar öllum sem tóku þátt í leiknum og bendir á að í raun voru þeir allir sigurvegarar en með því að taka þátt og deila sögum sínum og myndum lögðu þátttakendur sitt af mörkum í að halda umræðunni á lofti um gott málefni UNICEF. Þær fjöldamörgu myndir sem bárust VR má skoða hér og lesa sögurnar sem fylgdu.