Almennar fréttir - 13.11.2007
Viðræður hafnar
Ákveðið hefur verið að beita nýrri aðferði í þessum kjarasamningaviðræðum eða svokallaðri hagsmunamiðaðri samningaaðferð. Þetta er gert í kjölfar þess að ríkissáttasemjari stóð fyrir námskeiði þar sem voru mættir aðilar báðum megin borðsins.
Viðræðuáætlun er sameiginleg fyrir VR og LÍV og einnig hefur verið skipuð sameiginleg samninganefnd eins og gert var í síðustu samningum. Markmið aðila er að ljúka samningsgerð fyrir miðjan desember 2007. Hafi samningar ekki tekist fyrir 31. desember 2007 er heimilt að fela ríkissáttasemjara stjórn viðræðna.
Ályktun LÍV um kjaramál
Nýlokið er 26. þingi LÍV og þar var eftirfarandi ályktun samþykkt:
Þing Landsambands íslenzkra verzlunarmanna leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir sem tryggi launafólki aukinn kaupmátt.
Mikilvægt er að bæta sérstaklega kjör þeirra sem eru á lægstu laununum. Slíkt þarf að gera með margþættum aðgerðum; sátt þarf að ríkja um að kaupmáttur lægstu launa hækki umfram annarra í þjóðfélaginu, nýta þarf skattkerfið til að lækka skattbyrði lágtekjufólks. Þá er mikilvægt að efla velferðarkerfið m.a. með því að hækka barna-, vaxta- og húsaleigubætur og draga úr tekjutengingum. Jafnframt er mikilvægt að bæta sérstaklega kjör þeirra sem setið hafa eftir í launaþróuninni að undanförnu.
Þing Landsambands íslenzkra verzlunarmanna krefst þess að stjórnvöld axli ábyrgð sína á hagstjórninni og komi á efnahagslegum stöðugleika með lágri verðbólgu, hóflegum vöxtum og stöðugu gengi.