Almennar fréttir - 08.03.2024
Viðræðunefnd VR fundar með félagsfólki á Keflavíkurflugvellli
Viðræðunefnd VR fundaði í dag, 8. mars 2024, með starfsfólki Icelandair í farþega- og hleðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli vegna boðaðrar atkvæðagreiðslu um verkfall. Fulltrúar VR svöruðu spurningum fundarfólks og hlustuðu á áhyggjur þeirra af aðbúnaði sínum, vinnufyrirkomulagi og kjörum.
Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli vinnur í framlínu flugfélagsins og þeim er annt um bæði starf sitt og farþegana sem þau þjónusta. Þau hafa ítrekað kallað eftir leiðréttingu á sínum kjörum og starfsumhverfi og að störfum þeirra sé sýnd virðing.
Á mánudag hefst atkvæðagreiðsla meðal þessa starfsfólks þar sem hugur þeirra til verkfallsaðgerða verður kannaður. Atkvæðagreiðslunni lýkur á hádegi á fimmtudag, 14. mars.