Almennar fréttir - 21.06.2019
Viðbrögð VR við athugasemd Fjármálaeftirlitsins
Fjármálaeftirlið birti á vef sínum þann 19. júní sl. föðurlega áminningu til okkar í VR um að stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum sé óheimilt að beita sér fyrir því að sjóðirnir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem skýrt er frá í lögum um sjóðina. Þessa sneið fáum við frá Fjármálaeftirlitinu vegna þeirrar fullkomlega löglegu aðgerðar okkar að draga umboð núverandi stjórnarmanna okkar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna til baka og skipa þar nýtt fólk eins og er okkar hlutverk og ábyrgð.
Í nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sem fengið hafa nafnið Lífskjarasamningar, var áhersla lögð á vaxtalækkun enda er það ein besta kjarabót íslenskra heimila. Um þetta var almenn sátt í þjóðfélaginu.
Þegar stjórnarmenn VR í lífeyrissjóðnum standa að ákvörðun sem gengur þvert gegn þessari sátt og mikilvægu stefnu VR og hækkar vexti á íbúðalánum, þrátt fyrir að vextir á markaði hafa lækkað, situr VR ekki þögult hjá.
Eins og fram kemur í umfjöllun VR hefur lækkun vaxta á markaði undanfarin misseri ekki skilað sér til neytenda í lægri vöxtum íbúðalána, álag banka og lífeyrissjóða hefur bara aukist. Hefur, eða mun, Fjármálaeftirlitið gera athugasemdir við auknar álögur banka og lífeyrissjóða?
Fjármálaeftirlitið hlýtur að eiga að haga sínu eftirliti þannig að hagsmunir neytenda séu varðir. Þegar það bregst, eins og nú er raunin, stígum við inn og látum til okkar taka.
Í stefnu Fjármálaeftirlitsins stendur að markmið þess með störfum sínum sé m.a. að stuðla að því að fjármálamarkaðurinn njóti trausts og til að gæta hagsmuna almennings. Hvernig væri nú að Fjármálaeftirlitið sinnti þessum skyldum og gætti hagsmuna lántakenda eins og þeir gæta hagsmuna fjármagnseigenda?
Að lokum má geta þess að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru og hafa verið skipaðir af þeim aðilum sem að sjóðnum standa en ekki verið kosnir á ársfundi eða á sjóðsfélagsfundi.