Almennar fréttir - 10.10.2023
Við skorum á ykkur!
Boðað er til kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti? VR skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi. VR skorar einnig á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.
Samtök launafólks ásamt fjölmörgum öðrum baráttusamtökum kvenna og hinsegin fólks standa að þessum degi í ár. Konur og kvár sem það geta eru hvött til að mæta ekki til vinnu þennan dag og sinna jafnframt ekki þeim störfum og ábyrgð sem felst í annarri og þriðju vaktinni.
Kvennafrídagurinn 24. október var fyrst haldinn árið 1975 þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra fyrir samfélagið. Margt hefur áunnist frá þessum tíma en markmiðinu er ekki náð, konur og karlar standa enn ekki jafnfætis á vinnumarkaði. Krafa þessa baráttudags í ár er að störf kvenna verði metin að verðleikum og að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt.
VR hvetur konur og kvár sem það geta til að taka fullan þátt í þessum mikilvæga degi. Útifundir verða haldnir víða um land í tilefni dagsins, í Reykjavík verður haldinn fundur á Arnarhóli og hefst hann kl. 14:00. VR hvetur einnig fyrirtæki til þess að stuðla að því að konur og kvár geti tekið þátt í deginum eins og til hans er boðað.
Smelltu hér til að lesa spurt og svarað um kvennaverkfallið.