Almennar fréttir - 22.02.2019
Við samþykkjum ekki kaupmáttarrýrnun
Þann 13. febrúar gerðu atvinnurekendur stéttarfélögunum fjórum sem átt hafa í kjarasamningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara – VR, Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur – tilboð um launahækkanir í komandi kjarasamningum. Tilboðið hljóðaði upp á 15 þúsund króna hækkun mánaðarlauna á ári hverju upp að 600 þúsund krónum, auk fimm þúsund króna hækkun á taxta. Einstaklingar með 600 þúsund krónur í mánaðarlaun eða hærra fengju 2,5% hækkun launa á ári.
Þessu tilboði var hafnað af stéttarfélögunum fjórum enda dygði þessi hækkun ekki einu sinni til að halda í við verðbólgu hjá stórum hluta VR félaga, eins og henni er spáð. Á myndinni að neðan má sjá hvernig laun félagsmanna VR myndu þróast, miðað við tilboð SA. Kaupmáttur einstaklings sem er með 600 þúsund krónur í laun á mánuði myndi rýrna um 0,8% að meðaltali á ári á samningstímanum. Hér er miðað við spá Hagstofu Íslands sem gerir ráð fyrir 3,8% verðbólgu á þessu ári, 3,3% á næsta ári og 2,9% árið 2021.
Samtök atvinnulífsins meta heildarkostnað vegna tilboðs síns um 34 milljarða króna á ári á samningstímanum. Til samanburðar má geta þess að samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja fyrir árið 2018 var um 38 milljarðar króna.
Sanngirni ráði för
Í kröfugerð VR er farið fram á krónutöluhækkun launa sem skilar sanngjarnri niðurstöðu til þeirra sem hafa lægstu launin. Á fyrsta ári er farið fram á 42 þúsund króna hækkun allra launa, á öðru ári er farið fram á sömu krónutöluhækkun og á því þriðja hljóðar krafan upp á 41 þúsund króna hækkun mánaðarlauna. Þetta þýðir að þeir sem eru með lægstu launin fá hlutfallslega meiri hækkun en þeir sem eru með hærri launin. Yfir þriggja ára tímabil fær einstaklingur með 350 þúsund krónur í laun um 11% hækkun grunnlauna á ári að meðaltali en sá sem er með 850 þúsund krónur í laun fær tæplega 5% hækkun að meðaltali. Báðir fá hins vegar sömu krónutöluhækkun. Þetta má sjá á myndinni að neðan.
VR hefur lagt mat á kostnað við kröfugerð sína. Það gerir ráð fyrir hækkun launa um 7,9% að meðaltali á árinu 2019, 7,3% árið 2020 og 6,7% árið 2021. Gert var ráð fyrir í fjárlögum árið 2019 að laun myndu hækka um 6% og tryggingagjald lækka um 0,25% í ár og aftur á næsta ári.