Almennar fréttir - 10.10.2024
Veruleikafirrt Viðskiptaráð
Frumvarp til fjárlaga liggur nú fyrir Alþingi vegna ársins 2025. Fjárlagafrumvarpið hefur vakið athygli, eins og venja er þegar ríkisstjórnir leggja fram áætlanir um tekjur og sameiginleg útgjöld þjóðarinnar til næstu tólf mánaða. Í fjárlögum má nefnilega finna vísbendingar um áherslur komandi árs – hvaða verkefni verða fremst í forgangsröðinni og hvaða verkefni gleymast? Hvar verður gefið í og hvar verður skorið niður?
Það er því eðlilegt að ólíkum hagsmunahópum greini á um fjárlög. Hverjum þykir sinn fugl fagur og skiptar skoðanir eru á því hvernig beri að ráðstafa fé úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Á vef Alþingis má til dæmis finna um 60 innsendar umsagnir við fjárlagafrumvarp ársins 2025 frá hinum ýmsu hagaðilum sem hafa, eðli málsins samkvæmt, ólíkar skoðanir og áherslur.
Ein slík umsögn stingur hins vegar í stúf, en hún kemur frá Viðskiptaráði Íslands.
Viðskiptaráð leggur til „9 hagræðingartillögur um bætta afkomu“ sem ríkið gæti tileinkað sér til að skila hallalausum fjárlögum 2025. Þannig væri hægt, samkvæmt Viðskiptaráði, í níu einföldum skrefum að reka ríkissjóð með 6,5 ma.kr. afgangi í stað 41 ma.kr. halla. Þar ber helst að nefna þá tillögu ráðsins að ríkið svíki loforð sín í síðustu kjarasamningum og falli frá öllum aðgerðum sem samþykktar voru til að liðka fyrir samningum launafólks og atvinnurekenda. Viðskiptaráð hvetur þannig ríkið til þess að hætta við samþykktar hækkanir barnabóta, húsnæðisbóta og hámarksgreiðslna fæðingarorlofssjóðs og draga til baka samþykkt fyrir gjaldfrjálsum skólamáltíðum og spara sér þar með 14 milljarða.
Hugsandi fólk er ólíklegt til þess að taka tillögu Viðskiptaráðs alvarlega. Tillagan er illa unnin og í litlum tengslum við raunveruleikann.
Í fyrsta lagi má nefna þá einföldu staðreynd að stuðningsaðgerðir ríkisins hafa nú þegar verið samþykktar og eru bundnar af forsenduákvæðum kjarasamninga. Tillaga Viðskiptaráðs felur því óbeint í sér að rifta beri hógværum langtímakjarasamningum sem voru undirritaðir með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu. Slík aðgerð myndi valda ringulreið, skaða trúverðugleika kjarasamninga og stjórnvalda en jafnframt vinna þvert gegn yfirlýstum markmiðum um að draga úr verðbólguþrýstingi og liðka fyrir lækkun vaxta.
Í öðru lagi felur tillagan í sér árás á kjör almennings. Viðskiptaráð virðist telja skynsamlegra að ríkið brjóti trúnað við aðila vinnumarkaðarins með þeim afleiðingum að kjarasamningum sé rift, frekar en að fjármunum sé veitt til þess að styðja við tekjulágar fjölskyldur með ung börn og þunga greiðslubyrði af húsnæðislánum og húsnæðisleigu. Viðskiptaráð virðist reiðubúið til að ganga ansi langt til að ganga úr skugga um það að börn fái ekki gjaldfrjálsar skólamáltíðir og að nýbakaðir foreldrar fái ekki að njóta þess að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi séu hækkaðar, sem er löngu tímabær aðgerð.
Forgangsröðunin sem birtist í tillögum Viðskiptaráðs er því sérkennileg. Hún einkennist af þankagangi sem er svo litaður af hugmyndafræði niðurskurðarstefnu og harðræði (e. austerity) að ótrúlegustu tillögum er fleygt fram til þess að stemma af töflur í hroðvirknislega unnum Excel skjölum.
Viðskiptaráð leggur til að stjórnvöld gangi á bak orða sinna og að almenningi sé refsað. Til hvers? Bersýnilega ekki til að ná niður verðbólgu. Riftun kjarasamninga með tilheyrandi óstöðugleika mun ekki ná því markmiði.
Í greinargerð með tillögunni eru hugmyndir reifaðar um að það sé óæskilegt eða ólýðræðislegt að stjórnvöld liðki fyrir kjarasamningum með loforðum um stuðningspakka, eins og löng hefð er fyrir. Þessa orðræðu mætti skilja sem hálfbakaða röksemdafærslu fyrir því að ríkið hverfi frá áður samþykktum kjarasamningstengdum aðgerðum. Sú röksemdafærsla er þó ekki góð. Það er eitt að taka upp almennt samtal um hlutverk ríkisins í kjaradeilum framtíðarinnar en allt annað að leggja það til að undirritaðir samningar séu virtir að vettugi, sem er í raun það sem Viðskiptaráð leggur til.
Þriðja mögulega leiðin til þess að réttlæta tillögur af þessu tagi er á grundvelli pólitískra eða hugmyndafræðilegra ástæðna, og þar liggur hundurinn grafinn. Viðskiptaráð Íslands er með sínum tillögum að færa fram ákveðna pólítíska sýn um hvernig gæðum samfélagsins skuli verða skipt. Í umfjöllun ráðsins um fjárlagafrumvarpið er t.d. skrifað:
„Þegar kemur að því að loka fjárlagagatinu stendur val stjórnvalda milli skattahækkana og niðurskurðar. Viðskiptaráð telur að seinni kosturinn sé betri.”
Í fyrsta lagi er þessi framsetning villandi því hún virðist gera ráð fyrir því að hallarekstur ríkissjóðs sé óhugsandi eða alltaf slæmur. Ríkisfjármálin virka ekki eins og heimilisbókhald, þó það virðist vefjast fyrir mörgum. Að skila afgangi í ríkisfjármálum á tímum hægagangs er ekki efnahagsleg nauðsyn og mun gera stöðuna verri en nú þegar er. Þegar heimili og/eða fyrirtæki halda að sér höndunum ætti ríkið að stíga inn í og styðja við efnahagslífið. Þegar ríkið sker niður eða hækkar skatta til að skila afgangi í rekstri tekur það fjármagn frá heimilum og fyrirtækjum og dregur þannig úr heildareftirspurn, hægir á hagvexti og eykur atvinnuleysi.
Í öðru lagi gefur málflutningur Viðskiptaráðs til kynna að þeim finnist óhugsandi að venjulegt launafólk fái stuðning á tímum þar sem æ fleiri berjast í bökkum á ónýtum húsnæðismarkaði þar sem langvarandi aðgerðaleysi stjórnvalda hefur leitt til framboðsskorts, þar sem óreiða ríkir á leigumarkaði og þar sem gegndarlausar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands hafa refsað þeim sem skulda en hyglt þeim sem eiga fjármagn (í þessu samhengi er fínt að rifja upp að íslenskir stýrivextir eru meðal þeirra allra hæstu í Evrópu á eftir Tyrklandi, Rússlandi, Úkraínu og Belarús). Viðskiptaráð virðist vera svo heltekið af hugmyndafræði niðurskurðarstefnunnar að þeim þykir skynsamlegra að leiða vinnumarkaðinn í rjúkandi rúst heldur en að ríkið standi við gefin loforð um stuðning við þessa hópa.
VR hafnar alfarið þeim fráleitu og óábyrgu hugmyndum sem finna má í umsögn Viðskiparáðs Íslands um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2025. Tillögurnar sem koma fram í þeirri umsögn eru vanhugsaðar, illa unnar og í engum tengslum við efnahagslegan eða pólítískan raunveruleika. Fyrst of fremst eru þær hins vegar móðgun við launafólk sem samþykkti hógværar launahækkanir í nýlegum kjarasamningum og lagði þannig sitt af mörkum í baráttunni við verðbólguna.
VR stendur með almenningi í landinu og treystir því að stjórnvöld og annað skynsamlegt fólk geri það líka.
Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.