Almennar fréttir - 26.04.2019
Vertu með okkur á 1. maí
VR hvetur alla félagsmenn til þess að fjölmenna í kröfugöngur og á útifundi sem verða haldnir í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí næstkomandi.
Fjölskylduhlaup VR á Klambratúni
Í Reykjavík verður hitað upp fyrir kröfugöngu með léttu skemmtiskokki og hátíðardagskrá fyrir alla fjölskylduna. Jónsi í Svörtum fötum stýrir dagskránni sem hefst kl. 11:30 og munu Jói P og Króli halda uppi fjörinu á Klambratúni ásamt Sirkus Íslands. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, bulsur, gos og safa.
Íþróttaálfurinn og Solla stirða hita mannskapinn upp fyrir fjölskylduhlaupið en hlaupið er 1,5 km leið í kringum Klambratún. Þátttaka er ókeypis og fá allir þátttakendur í fjölskylduhlaupinu verðlaunapening.
Verkalýðskaffi og kröfuganga í Reykjavík
Í Reykjavík verður safnast saman fyrir kröfugönguna á Hlemmi kl. 13:00 og leggur gangan af stað kl. 13:30. VR verður með sitt árlega verkalýðskaffi fyrir félagsmenn sína í anddyri Laugardalshallar kl. 15:00 að loknum útifundi á Ingólfstorgi.
Kröfuganga á Selfossi
Kröfuganga fer frá Austurvegi 56 kl. 11:00 við undirleik Lúðrasveitar Selfoss en gengið verður að hótel Selfossi þar sem skemmtun fer fram. Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Sjá nánari dagskrá hér.
Hátíðardagskrá á Akranesi
Kröfuganga fer frá Kirkjubraut 40 kl. 14:00 og leikur Skólahljómsveit Akraness undir. Að göngu lokinni hefst hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3. hæð Kirkjubrautar 40. Sjá nánari dagskrá hér.
Hátíðar- og baráttufundur í Reykjanesbæ
Hátíðar- og baráttufundur verður haldinn í Stapa og hefst kl. 14.00 en húsið opnar 13.45. Sjá nánari dagskrá hér.
Dagskrá í Vestmannaeyjum
Baráttufundur verður haldinn í Alþýðuhúsinu og hefst kl. 14.30 en húsið opnar kl .14.00. Fulltrúi verslunarmanna flytur ávarp, nemendur úr Tónlistarskóla Vestmannaeyja sjá um tónlistina. Kaffisamsæti í boði stéttarfélaganna.