Update Texti Kona Med Skilti

Almennar fréttir - 19.06.2024

Verkalýðshreyfingin á kvenréttindadaginn

Þegar íslenskar konur bundust böndum í upphafi síðustu aldar um baráttuna fyrir borgaralegum réttindum kvenna sóttu þær þekkingu og innblástur til annarra landa, líkt og ítarlega er fjallað um á vef Kvennasögusafnsins. Baráttuhreyfing kvenna var þá, líkt og nú, alþjóðleg og konur leituðu leiða þvert á landamæri til að styðja baráttu hver annarrar og sporna gegn þeim sterku öflum sem töldu betra að halda í horfinu og skipa konum áfram skör lægra en körlum í þjóðfélaginu. Verkalýðshreyfingin hefur, eins og kvennahreyfingin, ætíð verið alþjóðleg og snúist um réttindi, kjör og samtryggingu. Konur hafa hins vegar alla tíð þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Hausatalningar mikilvægar, en ekki nóg
Um margt eru hausatalningar – að telja fjölda karla og kvenna á tilteknum vettvangi – frekar takmarkaður mælikvarði á réttindi kvenna, eða annarra hópa ef út í það er farið. En þær segja engu að síður mikilvæga sögu um stöðuna. Í dag, þegar 109 ár eru liðin frá því að lög um almennan kosningarétt og kjörgengi kvenna voru samþykkt frá Alþingi, hafa konur aldrei verið helmingur kjörinna fulltrúa á Alþingi. Verkalýðshreyfingunni hefur heldur ekki tekist að ná fram viðunandi sýnileika (e. representation), líkt og má sjá í áhugaverðu kynjabókhaldi ASÍ. Og nú þegar launafólk verður æ fjölbreyttari hópur er enn lengra í land, eins og afar lágt hlutfall erlends félagsfólks í trúnaðarstörfum innan verkalýðshreyfingarinnar ber vitni um.

VR hefur um langa hríð stuðst við kynjafléttu í stjórn til að tryggja bæði konum og körlum þátttöku í ákvarðanatöku og stefnumótun innan félagsins. Alla jafna er nokkuð jafnt hlutfall meðal fulltrúa Landssambands ísl. verzlunarmanna í starfi á vettvangi ASÍ og hin ójafna mynd sem er innan ASÍ verður ekki sett á reikning VR. Þar verður að líta til uppbyggingar hreyfingarinnar og hvernig hefðbundnar karlastéttir og þeirra stéttarfélög vega þyngra í skipulaginu. Hins vegar má spyrja hvort VR og LÍV ættu að tefla fram fleiri konum og jafnvel að endurskoða kynjafléttu til stjórnar, sem undanfarið hefur þjónað þeim tilgangi að lyfta körlum á kostnað kvenna.

Öðru fremur þarf að velta því upp hver áhrif kvenna eru innan verkalýðshreyfingarinnar og hvernig þau skila sér í þeim málefnum sem hreyfingin tekur á. Sýnileikanum þarf að fylgja viðurkenning (e. recognition) og endurdreifing gæða (e. redistribution), svo notast sé við hugmyndir fræðikonunnar Nancy Fraser um félagslegt réttlæti. Sem dæmi má nefna að viðvera kvenna á fundum breytir litlu ein og sér ef þær eru jaðarsettar og sjónarmið þeirra ekki tekin til greina. Dreifing gæða er líka viðvarandi viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar. Þó virðist það sjónarmið lífsseigt að sá launastrúktur sem er fyrir hendi hverju sinni sé hinn rétti og að launahækkanir eigi að viðhalda honum, þar á meðal sláandi launamun milli hefðbundinna kvennastétta og hefðbundinna karlastétta.

Jöfnuður gerir allt betra
Þátttaka kvenna í stjórnmálum snerist aldrei eingöngu um að þær léku þann leik sem mótaður hafði verið af körlum, þótt sumar hafi valið þá leið. Innkoma kvenna í stjórnmál breytti því um hvað var talað og hvaða ákvarðanir voru teknar, vegna þess að veruleiki þeirra var oft annar en valdakarlanna sem fyrir sátu. Konur settu menntamál, velferðarmál og heilbrigðismál á dagskrá. Þær eiga heiðurinn af því að Landspítali var reistur, að leikskólum var komið á laggirnar og að stjórnmál snúist um fleira en hagtölur og vegagerð. Þessi viðfangsefni eru ekki síður brýn í dag. Niðurskurðarhyggjan – sem líka er aldargömul – er að ná kröftum sínum að nýju eftir stutt COVID-hlé og samkvæmt henni eru velferðar- og heilbrigðismál öðru fremur kostnaðarliðir sem þarf að lækka. Áhrifin af því geta verið óafturkræf.

Á Íslandi eru lífsgæði um margt góð, þótt of stórum hópum sé haldið fyrir utan þau. Margt af því sem byggir þessi lífsgæði á rætur að rekja til baráttu verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og kvennahreyfingarinnar hins vegar. Hefði þeirra ekki notið við væri Ísland líkara löndum þar sem hver er sjálfum sér næstur, hópar undir fátæktarmörkum miklu stærri og heilbrigði og menntun ætluð þeim auðugustu. Við þurfum að hlúa að þessari arfleifð og sækja fram. Samfélög með jafnari valdahlutföllum – milli hinna vinnandi og þeirra sem eiga, milli karla og kvenna eða milli innfæddra og aðfluttra – eru einfaldlega betri samfélög.

Til hamingju með kvenréttindadaginn!

Halla Gunnarsdóttir
varaformaður VR