Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
lifskjarasamningur-mynd.JPG

Almennar fréttir - 11.04.2019

Vegna misskilnings um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningi

Nokkuð hefur borið á misskilningi varðandi vinnutímastyttingu í nýjum kjarasamningum VR/LÍV.
Eru vinnutímastyttingar settar í samhengi við kjarasamninga annarra stéttarfélaga þar sem því er haldið fram að samið hafi verið um minni styttingu vinnutímans á dag hjá VR en öðrum. Því er einmitt þveröfugt farið því vinnutímastyttingar hjá öðrum félögum miða við að starfsfólk felli niður kaffitíma til að ná fram styttingu en slík er ekki raunin hvað varðar umsamda styttingu í samningi VR. Auk þess fela nýir samningar annarra stéttarfélaga í sér að gera þarf vinnustaðasamninga til að ná fram vinnutímastyttingu. En hjá VR kemur til styttingar um 45 mínútur á viku óháð kaffitímum eða vinnustaðasamningum. Hér má sjá frétt af vef Eflingar um málið.

Í samningum VR er kveðið á um fasta 45 mínútna vinnutímastyttingu á viku miðað við fullt starf sem tekur gildi 1. janúar 2020, hafi ekki verið gert samkomulag um útfærslu vinnutímastyttingar innan vinnustaðarins fyrir 1. desember 2019. Að auki er einnig sá möguleiki fyrir hendi að stytta vinnuvikuna enn frekar með því að fella niður kaffitímana. Hér má sjá ýmsar útfærslur á því hvernig megi ná fram styttingu, hvort sem það er gert með niðurfellingu kaffitíma eða ekki.