Almennar fréttir - 17.02.2025
Úthlutun orlofshúsa VR að vetri til
Orlofshúsum VR verður í fyrsta skipti úthlutað í vetrarleigu veturinn 2025 – 2026 á ákveðnum tímabilum. Húsin eru leigð í viku í senn, frá fimmtudegi að telja. Fyrir utan þessi tímabil, er hægt að leigja húsin til skemmri tíma, án úthlutunar.
Orlofshúsunum verður úthlutað á þessum tímum:
- Vetrarfrí í skólum dagana 23. – 30. október 2025 og 19. – 26. febrúar 2026
- Jól 2025
- Áramót 2025 - 2026
- Páskar 2026
- Skíðatímabil á Akureyri frá 1. janúar til 30. apríl 2026 (orlofshús í Hálöndum og Skipagötu)
Allt fullgilt félagsfólk getur sótt um að fá úthlutað orlofshúsi á þessum tímum, og skiptir ekki máli þó viðkomandi hafi leigt orlofshús veturna áður eða ekki.
Umsóknartímabil
Opnað verður fyrir umsóknir um orlofshús á ofangreindum tímabilum þann 14. apríl og lokað fyrir umsóknir þann 30. apríl. Úthlutun fer fram þann 2. maí og hafa félagar til 12. maí til að ganga frá greiðslu á Mínum síðum á vef VR. Úthlutunarkerfi dregur af handahófi út félagsfólk sem fær sendan tölvupóst að úthlutun lokinni.
Almennar umsóknir
Þann 19. maí kl. 10:00 verður opnað á umsóknir orlofshúsa allt vetrartímabilið sem er frá 28. ágúst 2025 til 28. maí 2026. Þá gildir reglan „fyrst koma, fyrst fá“. Lágmarksleiga er þá tveir dagar og helgar eru leigðar frá föstudegi til mánudags.