Almennar fréttir - 30.12.2020
Úr skotgröfum í sókn
Eftir ár óvissu og átaka á vinnumarkaði stöndum við á krossgötum sem samfélag. Hvert skal haldið eftir bólusetningar við veirunni sem hefur haldið heimsbyggðinni í gíslingu síðasta ár?
Eftir að lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í apríl 2019 stóðu vonir til að friður myndi skapast á vinnumarkaði og vinnan framundan færi að mestu í uppbyggileg verkefni eftir mikla spennu og átök sem myndaðist á vinnumarkaði í aðdraganda þeirra. Árið sem átti að vera ár (jákvæðrar viðspyrnu) vinnandi fólks varð árið sem allt hrundi. Aftur!
Eftir stendur mikil varnarbarátta þar sem okkur tókst að verja kjarasamninginn okkar. Verja lífsnauðsynlegar hækkanir til að verja lífsnauðsynleg lífskjör eftir gengisfall, launafall og einstaklega óvægna framgöngu mótaðilans í okkar samningi. En varnarbaráttan er ekki eingöngu háð við samningaborðið heldur höfum við verið að þrýsta á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar nái einnig til okkar félagsmanna, fólksins í landinu, heimilanna.
340 milljarða aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar hefur að langmestu leyti verið eyrnamerktur atvinnulífinu en heimilin að mestu skilin eftir. Þó hægt sé að benda á sameiginlegan ávinning atvinnulífs og vinnandi fólks með hlutabótaleiðinni þá þýðir sú leið lækkun á ráðstöfunartekjum launafólks og lækkun á kostnaði fyrirtækja. Ávinningur hlutabótaleiðarinnar er fyrst og fremst að verja vinnusamband sem er jafn mikilvægt og verðmætt fyrir báða aðila.
Þá á ég eingöngu við sérstakar aðgerðir vegna Covid.
Við getum ekki talið með kostnað ríkissjóðs vegna atvinnuleysistrygginga (1956) eða annarra kjarasamningsbundinna réttinda sem forfeður okkar börðust fyrir með kjafti og klóm. Ekki frekar en orlofsréttinn (1942) eða almannatryggingar (1936) þá eru það ekki sérstakar Covid aðgerðir, heldur réttindi og tryggingar sem við höfum nú þegar samið um eða greitt fyrir.
Við höfum bent á leiðir til þess að verja heimilin með samnefndum stuðningslánum sem muni síðar breytast í styrk í gegnum tekjuskattskerfið. Mikilvæg aðgerð til að renna styrkari stoðum undir þá viðspyrnu sem framundan er. Viðspyrna á veikum grunni heimila og einstaklinga ætti að vera nægileg viðvörun ef við berum saman við þau mistök og bitru reynslu sem gerð voru í eftirmálum hrunsins sem kostað hafa ómælt tjón sem ekki verður metið til fjár.
Það eru margar leiðir til að vinna að sameiginlegum markmiðum atvinnulífs og vinnandi fólks.
Til að mynda í húsnæðismálum þar sem fyrirsjáanlegur skortur er á húsnæði næstu árin samkvæmt greiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar. Fyrirsjáanlegur skortur sem hægt er að greina eftir mikla endurskoðun síðustu ára. Ekki þarf lengur að telja byggingakrana eins og gert var fyrir og eftir bankahrun heldur hafa greiningaraðilar komið sér upp aðferðum til að gera það mun betur og nákvæmara en áður.
Í samhengi þess að niðursveifla verður á sama tíma á byggingamarkaði, en aftur nóg til af fjármagni ólíkt fyrri kreppum, gætu aðilar vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld tekið höndum saman um átak í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Það er ekki flókið reikningsdæmi hvaða áhrif það hefur á launaþróun að lækka kostnaðinn við að lifa í stað þess að sitja aðgerðarlaus á meðan hann hækkar. Annað mikilvægt markmið beggja er að þrýsta á frekari vaxtalækkanir í stað þess að fjármálafyrirtækin hækki vaxtaálag og skila þannig ekki þessum mikilvæga ávinningi út í samfélagið.
Þó sameiginlegu verkefnin séu mun fleiri þá þurfum við nauðsynlega bjartari tíma í samskiptum á vinnumarkaði.
Úr skotgröfum í sókn er ekki háleitt markmið heldur ákall um betri vinnubrögð og traust.
Traust sem verður að vera til staðar ef okkur á að takast að komast standandi út úr þeim efnahagslegu hamförum sem átt hafa sér stað vegna Covid veirunnar.
En þá verða allir að taka þátt. Ekki bara í orði hagsmunasamtaka vinnandi fólks og atvinnurekenda.
Þar þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Allir!
Verslunin, tryggingafélög, lífeyrissjóðir, bankarnir og stórfyrirtækin, allir sem vettlingi geta valdið. Ríkið og Seðlabankinn. Leggja sitt af mörkum með því að skrúfa niður hagnaðarsjónarmið og álagningu, niðurskurð og arðsemi í eitt til tvö ár. Þó ekki nema rétt á meðan við náum áttum og getum hafið uppbygginguna fyrir alvöru. Uppbyggingu sem ekki mun komast langt eða hratt á öðru afturhjólinu.
Það er enginn sigurvegari í þessari vegferð. Ef hagsmunir eins eru teknir fram yfir aðra myndast spenna og vantraust sem gæti orðið okkur öllum dýrkeypt þegar uppi er staðið. Við drífum ekki langt með því að setja öll hestöflin á eitt hjólið eða allan vindinn í eitt seglið.
En með því að sameina krafta okkar mun okkur takast betur og verða annars konar fyrirmynd en áður hefur þekkst af okkar landi.
Þannig verður til samfélagsleg sátt. Þannig myndast traust og jákvæðni og væntingar sem mynda fastari grunn til að nauðsynleg viðspyrna geti átt sér stað.
Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.