Almennar fréttir - 20.05.2021
Tökum lýðræðið með í vinnuna! Ráðstefna VR um atvinnulýðræði 27. maí
Lýðræði er grundvallarstoð samfélagsins. Við tökum þátt í kosningum um framkvæmdir og skipulag hverfa, við tökum þátt í mótun skóla barnanna okkar, við kjósum okkur leiðtoga til þess að stjórna landi og sveit. Hvers vegna er engin hefð fyrir því að starfsfólk taki þátt í stórum ákvörðunum vinnustaða sem hafa afdrifarík áhrif á vinnuumhverfi þeirra, verkefni og starfsöryggi? Við ættum ekki að skilja lýðræðið eftir heima þegar við förum í vinnuna - tökum það með!
Rík hefð er fyrir atvinnulýðræði í Evrópu og á Norðurlöndunum. Það er framkvæmt með ólíkum hætti, en er þó formlega framkvæmt eftir ákveðnum reglum. Í sinni einföldustu mynd þýðir atvinnulýðræði að starfsfólk, eða fulltrúar þeirra, geti haft áhrif á ákvarðanir er varða rekstur fyrirtækisins sem það starfar hjá.
VR hefur boðið sérfræðingum frá Danmörku og Noregi til þess að halda erindi á rafrænu ráðstefnunni. Inger Marie Hagen er sérfræðingur hjá FAFU í Noregi og hefur rannsakað lýðræði á vinnustað og stjórnarsetu starfsfólks. Hún mun segja frá því hvert hlutverk fulltrúa í stjórn er og hvort þeir geti haft áhrif fyrir hönd starfsfólks. Casper Berg Lavmand Larsen, doktorsnemi hjá Copenhagen Business School, segir okkur frá helstu niðurstöðum rannsókna sinna en hann sérhæfir sig í BLER (Board-level employee representation) eða setu starfsfólks í stjórn fyritækis. Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við HÍ hefur stundað rannsóknir á sviði vinnumarkaðsfræða og mun fjalla um ástæðurnar fyrir því að atvinnulýðræði hefur ekki verið virkt á Íslandi og hver ávinningurinn af því gæti orðið. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf. mun halda erindi um atvinnulýðræði á íslenskum vinnumarkaði.
Nánari dagskrá og skráning hér.
Ráðstefnan verður haldin rafrænt í gegnum Zoom. Nánari leiðbeiningar og hlekkur á ráðstefnuna verða send á skráða þátttakendur stuttu fyrir ráðstefnuna. Vinsamlegast athugið að það þarf að skrá sig a.m.k 30 mínútum fyrir ráðstefnuna til þess að fá örugglega hlekk sendan.