Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
2015_06_19_vr_kvenfrelsisdagurinn_hvitt_1.jpg

Almennar fréttir - 19.06.2018

Til hamingju með daginn konur!

Á þessum degi fyrir 103 árum, nánar tiltekið þann 19. júní 1915, fengu konur, 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis og fimm árum síðar hlutu konur kosningarétt til jafns við karla. Baráttuna fyrir þessum réttindum, sem við teljum svo sjálfsögð í dag, er hægt að rekja aftur til ársins 1885 en fyrsta opinbera krafan um kosningarétt til handa kvenna kom fram tíu árum síðar.

Í dag er kjörið að minnast þeirra kraftmiklu kvenna sem ruddu brautina og er varla hægt tala um kvenréttindi án þess að nefna Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í sömu andrá. Bríet kom að flestu því sem tengdist baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á hennar æviskeiði og var meðal annars fyrst á Íslandi til þess að skrifa grein tileinkaða málefninu, titlaða „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“. Greinina skrifaði hún aðeins 16 ára gömul þó hún hafi reyndar ekki verið birt fyrr en rúmum áratug seinna. Bríet var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar og upphafskona að stofnun Kvenréttindafélags Íslands.

Íslensk þjóð á Bríeti augljóslega margt að þakka og er sérstaklega mikilvægt að minnast hennar og þeirra sem á undan okkur hafa gengið og þeirrar baráttu sem þetta góða fólk hefur háð. Það er aftur á móti óhjákvæmilegt að horfast í augu við það að baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna er hreint ekki lokið. Samkvæmt nýjustu launakönnun VR er kynbundinn launamunur nú um 10%, en kynbundinn launamunur er sá munur á launum karla og kvenna þegar tillit hefur verið tekið til helstu áhrifaþátta á laun þ.e. vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, starfs- og atvinnugreinar, menntunar, mannaforráða og vaktavinnu. Vissulega eru 10% ósköp sakleysislegur munur. Eða hvað? Væri ásættanlegt að bjóða konum í dag upp á að aðeins fertugar konur og eldri mættu kjósa?
Rétt eins og jafn kosningaréttur kvenna og karla þykir sjálfsagður í dag ættu jöfn laun karla og kvenna að vera jafn sjálfsögð. Um leið og við fögnum þeim kvenréttindum sem áunnust á þessum degi megum við ekki gleyma þeim réttindum kvenna að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Þau hafa enn ekki orðið að veruleika.

Heimildir m.a.: Vísindavefur Háskóla Íslands og Kvenréttindafélag Íslands