Almennar fréttir - 21.03.2020
Takk fyrir að standa vaktina verslunarfólk!
Nú þegar hellist yfir okkur hver fréttin á fætur annarri um áhrif kórónaveirunnar á okkar viðkvæma samfélag er okkur skylt að þakka þeim sem standa vaktina í baráttunni við að sigrast á þessum ósýnilega óvini.
Fólkið í heilbrigðisþjónustu, löggæslu og öðrum framlínustörfum grunnþjónustunnar á mikinn heiður og lof skilið. En það eru fleiri sem standa vaktina og það í návígi við helstu smitleið veirunnar, sem berst með snertingu manna á milli. Það er afgreiðslufólkið okkar í verslun og þjónustu. Án þeirra væri samfélag okkar sannarlega lamað. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því hvernig staðan í samfélaginu væri ef ekki nyti við afgreiðslufólks stórmarkaða, verslana, apóteka og annarrar þjónustu sem við teljum þó sjálfsagða á þessum erfiðu tímum.
Við skulum hrósa verslunarfólki í framlínustörfum og við skulum þakka því fyrir að leggja heilsu sína og velferð undir við að tryggja okkur aðgengi að nauðsynjavörum og annarri þjónustu. Það er hreinlega aðdáunarvert að sjá hvernig þessir félagar okkar hafa lagað sig að þessum fordæmalausu aðstæðum með óeigingirni og djörfung. Það hefur heldur aldrei verið mikilvægara en nú að verslunareigendur tryggi öryggi starfsmanna sinna og varnir og ekki síst að viðskiptavinir virði reglur stjórnvalda um sóttkví og tveggja metra regluna.
Við skulum þakka verslunarfólki fyrir næst þegar við förum í búð, með bílinn í viðgerð eða hvar sem við njótum þjónustu í afgreiðslu eða móttöku.
Takk fyrir okkur kæra verslunarfólk, hrósið er ykkar líka!
Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna.