VR Vefur7

Almennar fréttir - 22.01.2025

Styrkir vegna sálfræðiþjónustu verði skattfrjálsir

Formaður VR hefur í samræmi við samþykkt stjórnar VR óskað eftir fundi með fjármála- og efnahagsráðherra til að fylgja eftir kröfu félagsins um breytingar á skattalegri meðferð styrkja vegna sálfræðiþjónustu. Styrkir stéttarfélaga til félagsfólks vegna endurhæfingar eða forvarna í formi sjúkraþjálfunar og líkamsræktar eru undanþegnir tekjuskatti. Það sama á hins vegar ekki við um styrki vegna sálfræðiþjónustu og gerir stjórn VR kröfu um að því verði breytt. Sálfræðiþjónusta getur að mati félagsins talist til endurhæfingar og forvarna ekki síður en sjúkraþjálfun.

Greiðslur úr Sjúkrasjóði VR hafa aukist mikið á undanförnum árum og má rekja þá aukningu að miklu leyti til geðheilbrigðismála. Mikið vantar upp á að aðstoð sé nægjanleg eða aðgengileg. VR telur það skyldu stjórnvalda að taka geðheilbrigðismál föstum tökum og tryggja að góð geðþjónusta sé aðgengileg og ekki dýru verði keypt. Liður í því er að hætta að skattleggja styrki sem eru greiddir vegna útlags kostnaðar fyrir sálfræðiþjónustu.

Bréfið til fjármálaráðherra má sjá hér.