Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Heima Appid (1)

Almennar fréttir - 03.05.2022

Smáforrit sem gæti breytt heiminum!

Þriðja vaktin hefur verið mikið til umfjöllunar að undanförnu en VR hefur staðið fyrir auglýsingaherferð um þá ólaunuðu ábyrgð og verkstýringu á heimilis- og fjölskylduhaldi sem kölluð er þriðja vaktin. Tveir ungir frumkvöðlar hyggjast gefa út smáforrit sem ætlað er að sjá um skipulag og hugræna byrði heimilisverka fyrir fjölskyldur og freista þess þannig að draga úr álagi þriðju vaktarinnar á fjölskyldur. Þær Alma Dóra Ríkarðsdóttir og Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir unnu Gulleggið árið 2020 með smáforritinu HEIMA og hafa nú báðar sagt upp í vinnunni, ráðið til sín forritara, Tristan John Frantz, og vinna hörðum höndum að því að gefa út smáforritið. Fjóla Helgadóttir, ritstjóri VR blaðsins, settist niður með Ölmu og Sigurlaugu og fékk að forvitnast um HEIMA.

Hvað er HEIMA?

Sigurlaug: Einfalda útskýringin er sú að HEIMA sé smáforrit sem sér um skipulag og hugræna byrði heimilisins fyrir fjölskyldur.

Alma: Í aðeins fleiri orðum þá byrjar fjölskyldan á því að svara nokkrum spurningum og HEIMA sérútbýr verkefnalista eftir þeirra þörfum. Smáforritið skiptir svo verkum á milli fjölskyldumeðlima, gefur stig fyrir hvert unnið verk og heldur utan um stigatöflu fjölskyldunnar. Að fara út með ruslið gæti til dæmis gefið 10 stig og að setja í uppþvottavélina 30 stig. HEIMA heldur utan um hvernig vinnan skiptist á milli fjölskyldumeðlima og það er alltaf hægt að sjá hver skiptingin er í prósentum talið, hver er að gera hvað og hvort öll séu að leggja sitt af mörkum. Þannig er hægt að haka við verkefni sem er lokið, bæta við verkefnum og þar fram eftir götunum. Það sem gerir HEIMA smáforritið einstakt er að notandinn þarf ekki að útbúa sinn eigin verkefnalista, við erum að þróa gervigreindarlíkan sem getur séð fyrir hvaða verkefni þarf að vinna heima hjá þér, hversu reglulega og hversu mörg stig þú ættir að fá fyrir hvert heimilisverk fyrir sig. Það þurfa nefnilega allir að ryksuga og skúra, og við getum séð slík verkefni fyrir. Fjölskyldan getur svo bætt við tilfallandi verkefnum.

Sigurlaug: Svo safnar fólk stigum fyrir að bæta heimilisverkum við verkefnalista fjölskyldunnar. Ef það er ein manneskja frekar en önnur sem bætir verkefnum inn á listann þá má gera ráð fyrir að sú manneskja beri þyngstu hugrænu byrðina.

Alma: Ef þú setur skutla/sækja á dagskrána inn í smáforritið þá færðu kannski 50 stig fyrir að hafa séð um þá „hugrænu byrði“. Þú ert kannski ekki sjálf/ur að fara að skutla/sækja, en ef það varst þú sem hugsaðir út í það, skipulagðir það og settir inn í smáforritið færð þú líka stig. Þannig sér HEIMA til þess að hugræna byrðin sé sýnileg og metin að verðleikum, eins og heimilisverkin sjálf.

Hvernig byrjaði þetta verkefni hjá ykkur?

Alma: Við Sigurlaug höfum þekkst lengi en hittumst svo í Boston rétt fyrir Covid-19 þar sem ég var að vinna með fjárfestum og Sigurlaug var í MBA námi við Boston University. Við áttum þarna mjög gott samtal um það hvernig okkur langaði að fara af stað með einhverskonar nýsköpunarverkefni sem gæti haft jákvæð áhrif á samfélagið. Svo kom Covid-19 og við fluttum báðar heim til Íslands. Sigurlaug var þá að vinna við hugbúnaðarþróun og ég fór að vinna að jafnréttismálum hjá Stjórnarráðinu. Hjá Stjórnarráðinu er mjög rík krafa um að kortleggja þau kynjasjónarmið sem eiga við lagafrumvörp og aðgerðir á vegum ráðuneyta. Þetta er algjört Pandórubox þegar maður byrjar að skoða þetta. Eitt af þessum þrástefum sem komu sífellt upp var ójöfn skipting heimilisverka og mér fannst þetta vandamál svolítið heillandi því það er bæði menningarlegt og sögulegt og hefur víðtæk áhrif á jafnréttismál, sama hvernig á þau er litið. Þetta ójafnrétti gerir það að verkum að konur eyða mun meiri tíma en karlar í heimilisverkin sem kemur niður á þróun kvenna í starfi, tímanum sem konur hafa til að sinna áhugamálum, heilsurækt, sjálfsrækt og svo mætti lengi telja. Það má vel tengja þetta við launamun kynjanna, þá staðreynd að færri konur eru í stjórnunarstörfum og að það ríki ekki jafnrétti á vinnumarkaði. Ég er viðskiptafræðingur í grunninn og mér fannst þetta magnað og hugsaði til þess að við notum hugbúnað í svo mörgu í daglegu lífi en ekki á þessu sviði og þá mundi ég eftir samræðum sem ég átti í Boston við ungan hugbúnaðarverkfræðing (hér lítur Alma brosandi á Sillu) og hugsaði að við hlytum að geta byggt einhverskonar tæknilega lausn við þessu vandamáli. Við svo hittumst á kaffihúsi með þessar pælingar þar sem HEIMA verður til á servíettu. Frumhugmyndin var að þróa skipulagshugbúnað sem aðstoðar fólk við að skipuleggja heimilisverkin.

Sigurlaug: Drifkrafturinn var að okkur langaði að leysa samfélagslegt vandamál með tækni. Við vorum strax ákveðnar í að gera eitthvað með þessa hugmynd og skráðum okkur í Gulleggið án þess að vera komin með nafn á verkefnið eða neitt. Gulleggið var alveg frábær vettvangur fyrir okkur að fá að móta hugmyndina, fá að spegla hana í „mentorum“ og búa til viðskiptaáætlun. Þetta fór þannig hjá okkur að við unnum Gulleggið árið 2020 svo að þetta gekk bara vel hjá okkur! Við höfum líka fengið mjög mikilvæga styrki sem hafa gert það að verkum að við gátum farið á fullt í þetta verkefni, til dæmis tækniþróunarsjóðsstyrk og styrk frá frumkvöðlasjóði Íslandsbanka auk annarra styrkja. Tristan forritari kemur svo inn í verkefnið á vormánuðum 2021 en við höfðum áður unnið saman að appi fyrir Icelandair og þekktum því hvort annað vel. Tristan er ótrúlega fær og fjölhæfur forritari og smellpassaði inn í verkefnið.

Sigurlaug: Það er margt fólk í kringum okkur sem er mjög spennt að fá þessa tæknilausn sem er samanburðarhæf við notendavænustu skipulagslausnirnar sem fólk notar í dag í öðrum verkefnum. Hingað til hefur fólk sem við höfum talað við aðallega verið að nota tól eins og Excel eða eitthvað sambærilegt ef það hefur verið að nota eitthvað til að skipuleggja heimilisverk og þriðju vaktina.

Hvenær stefnið þið á að koma HEIMA í loftið?

Sigurlaug: Við stefnum á að fara í loftið með litla beta útgáfu í apríl með grunnvirkni og þá einbeitum við okkur að því að veita áhugasömum sem hafa skráð sig á sérstakan póstlista hjá okkur fyrirfram aðgang (e. early access) en fólk getur enn skráð sig á póstlistann á vefnum okkar www.heimaapp.is!

Alma: Það má líka alveg minnast á að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 5.4 snýst um að skipta heimilisverkum jafnt og jafna þátttöku, ábyrgð og viðurkenningu heimilisverkanna. Við höfum byggt HEIMA í kringum það og viljum stuðla að því að uppfylla þetta markmið. Jafnrétti kynjanna er mín ástríða, ég er með diplómu í hagnýtum jafnréttisfræðum og á bara eftir að skila ritgerðinni fyrir meistaraprófið mitt í kynjafræði og þetta drífur mig því alveg gríðarlega áfram. Okkar von er sú að þessi lausn muni einfalda fólki lífið og spara því tíma. Á sama tíma hefur appið möguleika á því að hafa mikil áhrif á samfélagið okkar. Okkar draumur er sá að ef við getum með HEIMA smáforritinu jafnað skiptingu heimilisverkanna muni það hafa dómínó áhrif út í samfélagið og auka jafnrétti kynjanna. Ef konur eyða minni tíma í skipulagningu heimilisverkanna og þá hugrænu byrði sem því fylgir, mun streita minnka hjá konum og fækka ágreiningsmálum innan fjölskyldna. Þá gætum við öll frekar nýtt tímann fyrir gæðastundir með fjölskyldunni, í sjálfsrækt eða hvað sem er og ég held að þetta geti alveg breytt heiminum!

Þið gáfuð líka út HEIMA spilið á síðasta ári. Hvernig virkar það?

Sigurlaug: Það hefur nákvæmlega sama markmið, með áherslu á að vekja fólk til umhugsunar og skapa umræðu hjá fjölskyldum. Í spilinu erum við að kljást við vandamál með því að skapa umræðu og svo er appið verkfæri fólks til að tækla vandamálin.

Alma: Það er svo margt undirliggjandi og „normalíserað“ sem fólk leiðir ekki hugann að. Ef ég tek dæmi bara af sjálfri mér, ég á fjögur systkini og kem úr stórri fjölskyldu. Pabbi gat komið heim á þriðjudegi og tilkynnt að hann þyrfti að fara erlendis í vinnuferð á föstudegi og engin kippti sér upp við það. En þegar mamma fór eitthvert krafðist það miklu meiri undirbúnings og amma eða aðrir fjölskyldumeðlimir voru jafnvel kallaðir út til þess að aðstoða pabba við að halda heimilinu gangandi. Við skulum alveg hafa það á hreinu að pabbi minn er yndislegur maður og er mikill barnakarl! En svona var þetta bara á þessum tíma og það er ekki einu sinni langt síðan. Það er alveg búið að klóra aðeins í yfirborðið en við erum bara komin frekar stutt á veg. Það væri áhugavert að heyra svörin ef mæður spyrðu sig hvort þær kæmust í ræktina eftir vinnu án nokkurra vandræða? En feður? Þetta er svolítið spurningin hvort þú ert fyrsta stoðin eða önnur stoðin innan heimilisins. Við erum að reyna að vekja fólk til umhugsunar og skoða þetta með réttu tólin í höndunum. Hverju á fólk að spyrja sig að? Af því það er oft svolítið djúpt á þessu og viðkvæmt fyrir mörg sem vilja ekki tala um þetta og finnst það óþægilegt. Sumum finnst kannski líka eins og það sé verið að ráðast á þau með þessari umræðu. Fólk tínir til einhver verkefni sem það sinnir en svo kemur í ljós að það er ekki ýkja mikið sem það leggur af mörkum þegar allt kemur til alls. Þú sérð kannski um að fara með bíl í dekkjaskipti, en það gerist tvisvar á ári á meðan sá sem tekur úr uppþvottavélinni þarf að sinna því á hverjum einasta degi, allan ársins hring. Við munum setja inn í smáforritið þessi árstíðabundnu verkefni eins og að slá garðinn og svona. Það verður held ég bara mjög fróðlegt að sjá hversu langur tími fer raunverulega í hin og þessi verkefni.
Margar fjölskyldur vilja hafa hlutina á einhvern ákveðinn hátt og það er ekkert endilega ein nákvæm og jöfn skipting sem virkar fyrir alla. Það eru til dæmis fjölskyldur þar sem annar aðilinn er með fötlun og auðvitað er hvert samband ólíkt þannig að það skiptir máli að fólk geti skipulagt sig eins og þeim hentar. Með HEIMA smáforritinu eru þau allavega með gögn í höndunum um raunverulega skiptingu.

Sigurlaug: Smáforritið á að vera þannig að fólk geti bara valið og séð hvernig hlutirnir eru og svo er það bara fjölskyldna að meta niðurstöðurnar og kannski eru þær bara eðlilegar og þá erum við bara rosalega sátt. En að sama skapi má líka að benda á ef fólk er ekki sátt að þá hefur það þarna verkfæri til að bæta úr því.

Alma: Já, og gefa þeim grundvöll til að eiga samræðurnar. Svo þetta sé ekki alltaf sama: „Ég geri allt og þú ekkert“ nöldrið og fólk kemst ekkert áfram í samræðunum. En ef einstaklingur getur bent á það með gögnum að hann geri 65% verkefnanna þá opnast kannski frekar leið til að ræða hvernig hægt er að breyta því. Í grunninn gefur HEIMA fólki tækifæri til að styrkja sambönd sín og auka traust, virðingu og nánd. Ég myndi segja að það væri ekkert minna næs en að vera í sambandi með einhverjum sem ber ekki virðingu fyrir tíma þínum og gerir jafnvel lítið úr því sem þú gerir og tekur því kannski bara sem sjálfsögðum hlut. Okkar markmið er að láta jafnrétti byrja HEIMA!

HEIMA spilið auk ýmiss annars fróðleiks um þriðju vaktina má finna á vef VR.

Viðtalið birtist fyrst í 1. tbl. VR blaðsins 2022. Smelltu hér til að lesa blaðið.