Blaer Vrbanner Copy

Almennar fréttir - 16.04.2024

Skráning á biðlista íbúða hjá Blæ hafin

Skráning félagsfólks VR á biðlista eftir leiguíbúðum Blævar íbúðafélags er hafin. Hægt er að skrá sig á listann til 16. júní næstkomandi á Mínum síðum á vr.is. Blær er íbúðafélag á vegum VR sem býður leiguíbúðir fyrir félagsfólk við Silfratjörn í Úlfarsárdal.

Skráning á biðlista nú er forskráning fyrir fyrstu úthlutun íbúða í haust. Ekki skiptir máli hvenær á tímabilinu 16. apríl til 16. júní félagsfólk skráir sig, listanum verður raðað í handahófskennda röð áður en umsóknarferli fyrstu íbúða hefst. Alls verða 36 leiguíbúðir í boði að þessu sinni, fyrir félagsfólk VR eingöngu. Fyrsta úthlutun er áætluð í september og afhending íbúða í lok árs 2024.

Forskráning fyrir fyrstu úthlutun
Félagsfólk VR sem vill sækja um íbúð í fyrstu úthlutun haustið 2024 þarf að forskrá sig á biðlista og greiða árgjald sem er kr. 2.900. Þegar skráningu lýkur, 16. júní, verður raðað á biðlistann með handahófskenndum hætti og VR félagar sem skráðu sig fá úthlutað númeri í samræmi við þá röðun. Því lægra sem númerið er, því ofar á lista er viðkomandi. Allt félagsfólk sem forskráir sig á jafn mikla möguleika á að komast ofarlega á listann.

Úthlutun íbúða haustið 2024
Félagsfólk á biðlistanum fær tölvupóst með upplýsingum um íbúðirnar þegar nær dregur umsóknarferlinu. Þau sem eru með lægstu númerin og þannig efst á listanum njóta forgangs við úthlutun. Umsóknartímabil íbúða er frá 1. júlí til 6. september 2024 og afhending íbúða er áætluð í lok árs 2024. Allt félagsfólk getur skráð sig á biðlistann en umsækjendur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá úthlutaðri íbúð. Umsækjandi þarf að hafa náð 21 árs aldri við úthlutun, hafa verið félagi í VR í tvö ár og má ekki hafa átt fasteign fimm ár fyrir úthlutun. Þá eru einnig tiltekin skilyrði varðandi fjölskyldustærð, gæludýraeign o.sv.fr.

Stærð og skipulag íbúða sem standa til boða í haust og leiguverð verður kynnt þegar nær dregur umsóknarferlinu sjálfu.

Skráning á almennan biðlista
Eftir að skráningu á biðlista fyrstu íbúða lýkur 16. júní er opnað fyrir skráningu á almennan biðlista með fyrirkomulaginu „fyrst koma, fyrst fá“. Félagsfólk fær úthlutað númeri á listanum í þeirri röð sem umsókn þess berst. Allt félagsfólk á biðlistanum fær upplýsingar um íbúðir þegar þær losna, en þau sem eru efst á listanum og með lægsta númer njóta ætíð forgangs í umsóknarferlinu, að uppfylltum skilyrðum fyrir úthlutun.