Vr Frettamynd 12Feb

Almennar fréttir - 12.02.2025

Skattfrelsi sálfræðistyrkja komið á borð fjármálaráðherra

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur tekið vel í erindi VR þess efnis að styrkir stéttarfélaga til félagsfólks vegna sálfræðiþjónustu verði undanþegnir tekjuskatti og mun skoða málið í tengslum við næsta tekjuár.

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri félagsins, funduðu í morgun, 12. febrúar 2025, með Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til að ræða skattlagningu styrkja vegna sálfræðiþjónustu. Greiða þarf tekjuskatt af slíkum styrkjum á meðan styrkir t.d. vegna íþróttaiðkunar eru undanþegnir skatti. Stjórn VR samþykkti á fundi í október á síðasta ári að leggja áherslu á að fá þessu breytt og að formaður myndi taka málið upp við fjármálaráðherra. VR sendi erindi til ráðherra í síðasta mánuði og óskaði eftir fundi til að ræða þessa kröfu félagsins.

Stjórn VR gerir þá kröfu að skattaleg meðferð styrkja vegna sálfræðiþjónustu verði sú sama og vegna endurhæfingar eða forvarna í formi sjúkraþjálfunar og líkamsræktar. Sálfræðiþjónusta getur að mati félagsins talist til endurhæfingar og forvarna ekki síður en sjúkraþjálfun. Sjá hér erindi VR til ráðherra sem sent var þann 21. janúar.

Halla segir ráðherra hafa tekið vel í erindi félagsins á fundinum. „Í þessum reglum hins opinbera má greina ákveðinn aðskilnað á milli líkamlegrar og andlegrar heilsu sem er ekki alveg í takt við tímann. Ráðherra sýndi röksemdum okkar og málflutningi fullan skilning og var reiðubúinn til að skoða málið fyrir næsta tekjuár, þótt vissulega þurfi að huga að mörgum þáttum þegar breytingar eru gerðar á tekjuskattkerfinu. Við munum fylgja málinu eftir með vorinu og þrýsta á um að breytingarnar gangi eftir á næsta ári.”