Almennar fréttir - 21.11.2024
Skattahækkanir á almennt launafólk koma ekki til álita
Enginn flokkur sem býður fram til Alþingis hyggst hækka skatta á almennt launafólk, að því er fram kemur í svörum framboðanna við spurningum frá VR. Flokkarnir, að VG undanskildum, svara þó ekki hvort aukin gjaldtaka komi til álita.
VR sendi öllum stjórnmálaflokkunum spurningar um afstöðu þeirra til niðurskurðarstefnu (e. austerity) og til hvaða aðgerða þeir hyggist grípa í efnahagsmálum hljóti þeir umboð til. Í svörunum kemur fram að flokkarnir eru sammála um að ná niður vöxtum og verðbólgu en eru með ólíka sýn á hvernig það verði best gert. VR hefur unnið greiningu á svörum þeirra flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum og ljóst er að niðurskurðarstefna á sér málsvara víða í íslenskum stjórnmálum. Einnig er ljóst að reyna mun á að ná samstöðu um efnahags- og húsnæðismál í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar.