Almennar fréttir - 11.04.2025
Samlögun, tækifæri og valdefling - Reynslusaga innflytjanda á Íslandi
Þegar ég flutti til Íslands árið 1996 frá Bosníu og Hersegóvínu stóð ég frammi fyrir nýjum og framandi veruleika. Tungumálið var ólíkt öllu sem ég þekkti, samfélagið fylgdi ósýnilegum reglum sem ég þurfti að læra, og veðráttan kallaði á nýja þolinmæði. En þrátt fyrir allt fann ég fljótt fyrir hlýju – og samfélagi sem gaf mér tækifæri til að vaxa og finna mig á ný.
Það sem hafði mest áhrif á aðlögun mína var ekki endilega menntun heldur það að ég lærði íslensku af einlægni og ákafa – og gerði það á met tíma. Tungumálið opnaði mér dyr, ekki aðeins til að skilja heldur til að tilheyra. Á sama tíma vann ég markvisst að því að byggja upp tengslanet í gegnum félagsstörf, sjálfboðavinnu og íþróttir. Þessi tengsl, samveran og traustið sem þau sköpuðu, urðu grunnurinn að minni samlögun.
Síðar lauk ég námi í stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu og hóf störf innan opinbera kerfisins – meðal annars sem leiðtogi alþjóðateymis á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og sem verkefnastjóri hjá sveitarfélögum. Sú reynsla, ásamt minni eigin innflytjendavegferð, varð mér mikilvæg í því að styðja aðra í svipuðum sporum. Ég stofnaði einnig IZO ráðgjöf, fyrirtæki sem veitir stofnunum og fyrirtækjum ráðgjöf um fjölmenningu, flóttafólk og inngildingu – allt með það að markmiði að efla menningarnæmi og sjá styrkleika í fjölbreytileikanum.
Samfélagsleg þátttaka hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af mér. Ég var meðal stofnenda Blakfélags Keflavíkur, sem varð vettvangur fyrir konur af ólíkum uppruna til að sameinast í leik og hreyfingu. Ég tók virkan þátt í stjórnmálum, meðal annars sem varabæjarfulltrúi og meðstofnandi tveggja stjórnmálaflokka á Suðurnesjum – með það að markmiði að tryggja að raddir allra heyrist.
Sem sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg leiddi ég verkefnið Sendiherra, sem styrkir tengsl milli innflytjenda og þjónustukerfisins með því að þjálfa einstaklinga af erlendum uppruna sem brú milli samfélagsins og borgarinnar. Ég hef einnig starfað með samtökunum Hennar rödd og FKA að því að efla stöðu kvenna af erlendum uppruna í atvinnulífi, lýðræði og leiðtogastörfum.
Í dag starfa ég hjá Rauða krossinum á Íslandi, þar sem ég stýri verkefnum sem miða að því að efla viðbúnað, seiglu og andlega heilbrigði í samfélögum sem hafa orðið fyrir áföllum og náttúruhamförum. Í öllu mínu starfi hef ég lært að jafnrétti er ekki aðeins til á blaði – heldur lifandi viðfangsefni sem krefst raunverulegrar þátttöku, hlustunar og trausts.
Ég hef einnig mætt fordómum – oft þurft að sanna mig oftar en aðrir til að fá sömu tækifæri. Það hefur kennt mér mikilvægi þess að halda áfram, standa með sjálfri mér og þeim sem ekki fá alltaf að njóta sín. Stundum hefur þessi barátta kallað fram neikvæð viðbrögð, en það hefur aðeins styrkt mig í þeirri trú að umræðan sé nauðsynleg – og að breytingar verði ekki til í þögn.
Ég vil hvetja aðra innflytjendur til að stíga fram. Ekki vera hrædd við að láta rödd ykkar heyrast, að taka þátt, að taka pláss. Samfélagið okkar verður sterkara og ríkara þegar fleiri fá að blómstra. Þið eigið ykkar sess – og það skiptir máli að þið notið hann.
Jasmina Vajzovic Crnac