Almennar fréttir - 25.10.2022
Ríkisstjórnin rannsakar aðra og þriðju vaktina
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja undirbúning að rannsókn á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum, sem hafa stundum verið nefnd önnur og þriðja vaktin. Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að íslensk rannsókn á þessu efni gæti gefið skýrar og auðskiljanlegar niðurstöður og náð að fanga kynjaðan raunveruleika á annan hátt en gert hefur verið.
Á vef Stjórnarráðsins er vitnað í skýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða en þar koma fram fjölmargar áskoranir í jafnréttismálum og má skipta þeim í fjögur þemu. Þau eru: Kynskiptur vinnumarkaður, launamunur kynjanna, ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf og kynjamunur á heilsu og líðan. Þessir þættir hafa allir áhrif hver á annan og birtingarmyndirnar eru ólíkar eftir málefnasviðum.
VR stóð fyrir auglýsingaherferð um þriðju vaktina og hugræna byrði síðastliðið haust og vakti herferðin mikla athygli. Nánar má lesa um þriðju vaktina á vef VR hér.