Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-2.jpg

Almennar fréttir - 01.06.2017

Ríkið braut á stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna VR

Þann 1. júní 2017 var kveðinn upp í Hæstarétti dómur í máli VR gegn ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmda í byrjun árs 2015. Dómurinn féll VR í vil og tekur Hæstiréttur þannig undir þá kröfu félagsins að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða stjórnarskrárvarinn rétt hundruða félagsmanna VR til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, eða úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Ríkið taldi sig geta sparað 1.130 milljónir króna með þessum breytingum. Sjá dóminn á vef Hæstaréttar

Í ljósi þessarar niðurstöðu gerir VR þá kröfu að Vinnumálastofnun flýti endurreikningi á atvinnuleysisbótum allra félagsmanna VR sem og annarra einstaklinga sem breytingin náði til á þeim tíma, þ.e. þeirra sem fengu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt lögum.

VR hvetur félagsmenn sína, sem breytingin tekur til, til að hafa samband við Vinnumálastofnun og leita réttar síns. VR mun fylgja því eftir að bætur og dráttarvextir verði rétt reiknaðir.