Almennar fréttir - 06.12.2019
Réttindi þín í desember
Nú er mesta vinnutörn ársins að hefjast hjá verslunarfólki. Við viljum því minna á ýmis atriði sem lúta að réttindum og skyldum starfsmanna.
Desemberuppbót
Desemberuppbót til félagsmanna VR skal greiðast ekki síðar en 15. desember. Desemberuppbót fyrir fullt starf á árinu 2019 er 92.000 kr.
Sjá reiknivél fyrir desemberuppbót hér.
Skráning vinnutíma
Þegar mikið er að gera er góð vinnuregla að skrá niður vinnutíma sinn. Í mörgum tilvikum er um talsverða aukavinnu að ræða og mikilvægt að halda vel utan um tímaskráningu svo komast megi hjá misskilningi og mistökum við útreikning launa. Þar sem flestar verslanir ráða tímabundið til sín skólafólk yfir háannatímann er einnig mikilvægt að hnykkja á þessu atriði við nýtt samstarfsfólk. Tímaskráningarappið Klukk frá ASÍ er hentugt að hafa í símanum en hægt er að sækja appið í App store fyrir Iphone og Play store fyrir Android síma.
Frídagar yfir hátíðarnar
Ekki er vinnuskylda á eftirfarandi dögum og skulu launamenn halda sínum dagvinnulaunum óskertum:
Eftir kl. 12.00 á aðfangadag (stórhátíðardagur).
Jóladagur (stórhátíðardagur).
Annar í jólum (almennur frídagur).
Eftir kl. 12.00 á gamlársdag (stórhátíðardagur).
Nýársdagur (stórhátíðardagur).
Auk þess má minna á að fyrsta vinnudag eftir jól skal dagvinna í verslunum hefjast kl. 10.00.
Laun á frídögum
Samþykki launamenn að taka að sér vinnu á frídögum skal greiða eftirvinnukaup fyrir alla tíma utan skilgreindrar dagvinnu upp að 171,15 klst. í verslun eða 162,5 klst. í skrifstofustarfi, eða yfirvinnukaup fyrir vinnu á almennum frídögum og stórhátíðarkaup fyrir vinnu á stórhátíðardögum.
Kaupið reiknast þannig:
Eftirvinnukaup: 0,8235% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu í verslun.
Næturvinnukaup: 0,8824% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu í verslun.
Eftirvinnukaup: 0,875% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu.
Næturvinnukaup: 0,9375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu.
Yfirvinnukaup: 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu og í verslun.
Stórhátíðarkaup: 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu og í verslun.
Hefðbundin dagvinnulaun launamanns í föstu og reglubundnu starfi haldast auk þess óbreytt. Ef launamaður er ráðinn inn í verslun yfir jólin tímabundið, einungis í 3 vikur, skal miða greiðslu yfirvinnukaups hlutfallslega þ.e. fyrir alla tíma sem unnir eru umfram 118,5 klst.
Daglegur hvíldartími
Á hverjum sólarhring á starfsmaður rétt á 11 klst. hvíld. Óheimilt er samkvæmt lögum að skipuleggja vinnu á þann hátt að vinnudagurinn sé lengri en 13 klst.
Frávik og frítökuréttur
Ef 11 klst. hvíld næst ekki, skal veita hana síðar. Þannig safnast upp svokallaður frítökuréttur.
Fyrir hverja klukkustund sem 11 tíma hvíldin skerðist öðlast starfsmaður 1,5 klukkustund í dagvinnu í frítökurétt.
Dæmi: Starfsmaður hefur störf kl. 08.00. Hann lýkur störfum kl. 23.00 og kemur aftur til vinnu kl. 08.00 daginn eftir. Samfelld hvíld á milli vinnudaga er einungis níu klst. Hvíldartími hefur þ.a.l. verið skertur um tvær klst. og öðlast viðkomandi starfsmaður því frítökurétt upp á 3 klst. fyrir vikið.
Undir öllum kringumstæðum er óheimilt að skerða 8 klst. samfellda hvíld.
Vikulegur frídagur
Vinnu skal skipuleggja á þann hátt að hver starfsmaður fái a.m.k. einn vikulegan frídag. Ef starfsmaður vinnur sjö daga í röð, á hann rétt á fríi á virkum degi í næstu viku á eftir, án skerðingar launa.
Helgarvinna
Þegar unnið er á laugardögum og sunnudögum greiðist aldrei minna en fyrir 4 klukkustundir, þótt unnið sé skemur.
Matar- og kaffitímar
Hádegismatartími: Á bilinu 1/2 til 1 klukkustund (háð samkomulagi). Þessi matartími telst ekki til vinnutíma. Starfsfólk þarf að vinna a.m.k. 5 klukkustundir til að öðlast rétt til matartíma í hádeginu.
Kvöldmatartími: 1 klukkustund (á milli kl. 19.00 og 20.00) og telst til vinnutíma. Ef kvöldmatartíminn eða hluti hans er unninn skal greiða þann hluta með yfirvinnukaupi. Réttur til kvöldmatartíma miðast við a.m.k. fjögurra og hálfrar klst. vinnu.
Kaffitími: 35 mínútur á dag hjá afgreiðslufólki og 15 mínútur á dag hjá skrifstofufólki, miðað við fullan vinnudag. Launamenn í hlutastörfum eiga rétt á hlutfallslegum kaffitíma.
Ef unnið er lengur en til kl. 22.00 skal veita 20 mínútna kaffitíma á tímabilinu kl. 22.00-22.20. Á Þorláksmessu er heimilt að veita þann kaffitíma á bilinu kl. 21.40-22.20.
Nánari upplýsingar má sjá hér.