Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Marta Og Soley

Almennar fréttir - 18.03.2021

Rafrænt námskeið - Hvernig get ég látið hugarfarið vinna betur með mér?

VR býður upp á áhugavert námskeið þriðjudaginn 23. mars næstkomandi kl. 9:00-10:30 um það hvernig hugarfarið getur haft áhrif á það hvernig við tökumst á við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni.

Grósku hugarfar einkennist af því viðhorfi að við getum vaxið og lært af reynslunni og tekið þannig framförum. Hugarfar grósku eflir okkur og gerir okkur kleift að ráða betur við mótlæti. Við erum tilbúnari til að takast á við áskoranir og breytingar, erum framsýnni, meira skapandi og náum frekar markmiðum okkar, en ef svokallað fastheldið hugarfar er ríkjandi.

Leiðbeinendur eru Marta Gall Jörgensen og Sóley Kristjánsdóttir, sérfræðingar á sviði mannauðsmála hjá Gallup. Marta er sálfræðingur að mennt og Sóley með BA í sálfræði og MS í mannauðsstjórnun.

Rafræn námskeið og fyrirlestrar VR hafa heldur betur slegið í gegn hjá félagsmönnum og núna í mars 2021 hafa yfir 890 félagsmenn nýtt sér þessa þjónustu.

Vakin er sérstök athygli á því að námskeiðin fara fram í gegnum samskiptaforritið Zoom og þar sem þau eru gagnvirk eru þau einungis aðgengileg í rauntíma. Þátttakendur fá mest út úr námskeiðunum með því að gefa sér tíma og taka virkan þátt í umræðum og verkefnum á meðan á námskeiði stendur.

Smelltu hér til að skrá þig!