Vr Sv Fundur 17022025 A 1

Almennar fréttir - 18.02.2025

Ræktum vitið komið á skrið

Vefsíðan Ræktum vitið hefur verið opnuð en hún er hluti af viðamiklu átaki í starfsmenntamálum á vegum VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna ásamt Samtökum verslunar og þjónustu. Samstarfssamningur VR/LÍV og SVÞ um átak í sí- og endumenntun var undirritaður 2023 og kveður á um markvissa vinnu að hæfniaukningu starfsfólks í verslun og þjónustu allt til ársins 2030.

Vefsíðan var opnuð formlega á ráðstefnu mánudaginn 17. febrúar þar sem fjallað var um stöðu og mikilvægi sí- og endurmenntunar og hvaða leiðir standa einstaklingum og fyrirtækjum til boða til að auka hæfni starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum. Framkvæmdastjórar VR og SVÞ, Stefán Sveinbjörnsson og Benedikt S. Benediktsson, fóru yfir helstu markmið samningsaðila og mikilvægi þess að renna fleiri stoðum undir starfsmenntamál í greininni.

Mikilvægi menntastefnu

Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, fjallaði um niðurstöður könnunar meðal starfsfólks og stjórnenda í verslun og þjónustu um sí- og endurmenntun. Þær sýna skýran mun á stöðunni eftir starfi, fleiri sérfræðingar og stjórnendur sækja sér endurmenntun í einhverju formi en aðrar starfsstéttir. Þá benda niðurstöðurnar til þess að það skipti höfuðmáli fyrir sí—og endurmenntun starfsfólks að fyrirtæki hafi menntastefnu. Yfir 70% starfsfólks hefur sótt sí- og endurmenntun á vinnustöðum sem hafa skilgreinda menntastefnu á móti 38% sem hafa ekki menntastefnu skv. könnun VR.

Dr. Edda Blumenstein, fagstjóri hjá Háskólanum Bifröst, kynnti nýtt nám í verslun og þjónustu sem skólinn býður upp á frá hausti 2025. Áhersla verður á hagnýta þekkingu og færni í náminu og er því ætlað að skapa nýja kynslóð leiðtoga í verslunar- og þjónustugreinum. Tækifæri í þessari atvinnugrein eru mikil fyrir félagsfólk VR, ekki síst fyrir þau sem leitast við að styrkja stöðu sína með aukinni menntun.

Rúna Magnúsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ, kynnti leiðir fyrir fyrirtæki til að móta markvissa menntastefnu, en eins og fram kom að ofan skiptir miklu máli fyrir hæfniaukningu innan fyrirtækis að það hafi menntastefnu. Rúna fór yfir möguleika gervigreindar á þessu sviði með notkun ChapGPTsem getur auðveldað fyrirtækjum mjög þessa vinnu.

Þrjú meginmarkmið samningsins

Samningur VR/LÍV og SVÞ felur í sér þrjú meginmarkmið. Fram til ársins 2030 er stefnt að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu.

Þá verður sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að 80% þessa hóps búi árið 2030 yfir hæfni B1 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio).

Í þriðja lagi er stefnt að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins.

Sjá samninginn í heild sinni hér.