Almennar fréttir - 27.04.2011
Nýr formaður tekur við á aðalfundi
Á fundinum var farið yfir ársskýrslu félagsins fyrir starfsárið 2010 til 2011 sem og reikninga ársins 2010. Hvorutveggja var borið undir fundinn og var samþykkt samhljóða. Afkoma félagsins á árinu 2010 nam 661 milljón króna miðað við 341 milljón króna árið á undan. Munar þar helst um aukningu í iðgjöldum. Þá voru útgreiðslur úr Sjúkrasjóði og varasjóði félagsins 165 milljónum króna lægri en árið á undan og bendir allt til þess að jafnvægi sé komið á hvað varðar ásókn í sjóði félagsins eftir mikla aukningu í kjölfar hrunsins í október 2008. Fjármunatekjur félagsins námu 557 milljónum króna en það er aukning um 160 milljónir króna á milli ára. Raunávöxtun félagsins var 5,79%.
500 milljónir í VR varasjóð
Lögð var fram tillaga um framlag í VR varasjóð að upphæð um 500 milljónir króna vegna ársins 2010 og var hún samþykkt.
Nokkrar tillögur að breytingum á lögum VR, einkum 20. greininni sem fjallar um kosningu formanns, stjórnar og trúnaðarráðs, voru lagðar fram á fundinum. Eftir umræður voru samþykktar breytingar á lögum sem m.a. gera ráð fyrir því að stjórnir deilda félagsins utan höfuðborgarsvæðisins eigi fasta fulltrúa í trúnaðarráði.
Nýr formaður tekur við
Lýst var kjöri formanns, stjórnar og trúnaðarráðs á fundinum en kosningar voru haldnar í félaginu í mars. Kristinn Örn Jóhannesson lét af störfum sem formaður eftir tveggja ára setu og Stefán Einar Stefánsson tók við. Í ræðu sinni þakkaði Kristinn Örn meðstjórnendum sínum, trúnaðarráði félagsins og starfsmönnum samstarfið á síðustu tveimur árum sem hann sagði hafa verið lærdómsrík.
Alvarleg staða á vinnumarkaði
Nýkjörinn formaður, Stefán Einar Stefánsson, gerði stöðuna í kjarasamningum að umræðuefni í ræðu sinni og gagnrýndi afstöðu Samtaka atvinnulífsins. Sem kunnugt er hefur VR vísað deilu sinni og SA til ríkissáttasemjara en ekkert hefur gengið í viðræðum undanfarna daga. Verkfall vofir yfir náist ekki samkomulag fljótlega.
Stefán Einar sagði forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa gengið alltof langt og alltof lengi í því að beita fyrir sig kjarasamningum á vinnumarkaði í þeirri viðleitni sinni að hafa sitt fram hvað varðar breytta umgjörð fiskveiðilöggjafar landsins. "Þeir sem þar ráða för hafa engan siðferðislegan eða lagalegan rétt til þess að halda launafólki í landinu í gíslingu vegna þessa máls," sagði Stefán Einar.
"Allt frá hruni hefur almenningur í landinu sýnt ótrúlegt þolgæði, yfirvegun og vilja til þess að gera gott úr því sem að höndum hefur borið. Það hefur m.a. verið gert af virðingu við atvinnurekendur, laun hafa lækkað, fólki hefur verið sagt upp, dregið hefur úr yfirvinnu og þannig mætti lengi telja. Allt hefur þetta verið framlag okkar launamanna til þess að halda fyrirtækjunum og hjólum efnahagslífsins gangandi. En við getum ekki dregið þann vagn ein og sér. Það þurfa allir að leggjast á eitt. Og nú er svo komið að Samtök atvinnulífsins hafa í raun gefið það út, að þau ætlast til þess að við höldum púlinu áfram en að þau geti haldið að sér höndum þar til öllum þeirra kröfum hefur verið fullnægt gagnvart hinu opinbera. Við það verður ekki unað."