10Sept2024

Almennar fréttir - 10.09.2024

Nú er nóg komið!

„Það sem á sér stað í íslensku samfélagi akkúrat núna er enn ein eignatilfærslan. Tilfærsla á eignum og fjármagni frá fólkinu sem skapar verðmætin og vinnur störfin til þeirra sem mest eiga. Enn á ný horfum við upp á varðstöðu um fjármagnsöflin og hver á að borga? Það erum við. Við sem vinnum. Við sem leigjum. Við sem skuldum,“ sagði varaformaður VR, Halla Gunnarsdóttir, í ávarpi á fjölmennum mótmælum verkalýðshreyfingarinnar á Austurvelli. „Við viljum samfélag fyrir fólk, ekki fjármagn.“

Alþýðusamband Íslands, BSRB og Kennarasamband Íslands boðuðu til mótmæla gegn skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart hárri verðbólgu og vöxtum.

Auk varaformanns VR fluttu formenn BSRB, KÍ og Sameykis, þau Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Magnús Þór Jónsson og Þórarinn Eyfjörð ávörp en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og varaforseti ASÍ, stýrði fundinum. Fjöldi fólks lagði leið sína á Austurvöll og lét vel í sér heyra. Krafan var skýr, launafólk hefur lagt sitt af mörkum og nú verða stjórnvöld að standa með heimilum landsins. Launafólk sættir sig ekki við aðgerðarleysi og innantóm loforð. Nú er nóg komið!

Hér má sjá ávarp Höllu Gunnarsdóttur í heild sinni.