Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Expectus2

Almennar fréttir - 10.10.2023

Nóbelsverðlaun veitt vegna rannsókna á launamun kynjanna

Claudia Goldin hlaut í gær, mánudaginn 9. október 2023, hagfræðiverðlaun sænska Seðlabankans til minningar um Alfreð Nóbel árið 2023. Goldin er prófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum og er þriðja konan sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði síðan þau voru fyrst veitt árið 1969. Í tilkynningu Nóbelsnefndarinnar kemur fram að Goldin hljóti verðlaunin fyrir að dýpka skilning fræðafólks á stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Rannsóknir Goldin hafa varpað ljósi á eðli launamunar kynjanna og sýnt að barneignir spili stóran þátt í launamun karla og kvenna. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum rannsóknar sem Goldin birti árið 2010 og sýnir launaþróun karla og kvenna yfir fimmtán ára tímabil sem útskrifuðust með MBA gráður frá Chicago háskóla á sama tíma. Í ljós kom að enginn munur var á launum hópsins fyrstu árin eftir útskrift. Laun þeirra kvenna sem eignuðust börn drógust hins vegar hratt aftur úr í kjölfar fæðingar og voru talsvert undir meðaltali hópsins í lok tímabilsins. Barneignir höfðu aftur á móti lítil sem engin áhrif á laun karla, sem hækkuðu jafnt og þétt í launum yfir fimmtán ára tímabilið.

Rætur þessa mismunar má rekja til þess að umönnunar- og heimilisstörf falla frekar á herðar kvenna sem eru því líklegri en karlar til þess að taka sér hlé frá vinnu eða lækka starfshlutfall sitt. Þegar þessar konur koma síðan aftur út á vinnumarkaðinn fá þær lægri laun en karlar og konur sem eignast ekki börn. Rannsóknir Goldin benda til þess að barneignir hafi með þessu móti meiri áhrif á launamun kynjanna en aðrir þættir, eins og menntun eða val á starfsgrein.

Niðurstöður Goldin hafa fengið frekari staðfestingu úr öðrum rannsóknum, til dæmis í rannsókn hagfræðinga við Kaupmannarhafnarháskóla frá 2018 sem sýndi að laun danskra kvenna lækkuðu skarpt í kjölfa barneigna og að þau áhrif skýrðu 80% af launamun knyjanna í Danmörku.

VR fagnar því að rannsóknir á þessu sviði hljóti viðurkenningu Nóbelsnefndarinnar en niðurstöður Claudia Goldin tala beint inn í umræðu um leikskólamál, umönnunarbilið og jafnrétti á vinnumarkaði, auk þriðju vaktarinnar sem VR hefur vakið athygli á.

Launaþróun karla og kvenna í kjölfar barneigna
Launaþróun karla og kvenna í kjölfar barneigna