Vr Fundur 17092024 A 2

Almennar fréttir - 24.09.2024

Niðurskurðarstefna er pólitísk hugmyndafræði

Málþing VR um þróun og áhrif niðurskurðarstefnu september 2024

Fjölmenni sótti málþing VR um niðurskurðarstefnu (e. austerity) en lykilfyrirlesari á þinginu var Clara Mattei, prófessor í hagfræði, sem skrifað hefur ítarlega um tilurð og þróun niðurskurðarstefnunnar allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Málþingið var haldið í tilefni af því að öld er liðin frá því niðurskurðarstefnan var fyrst skipulega innleidd á Íslandi. Yfirskriftin var „Efnahagsleg nauðsyn eða pólitísk hugmyndafræði“ og var rætt um áhrif þessarar umdeildu stefnu bæði erlendis og hérlendis.

Málþingið var haldið að frumkvæði stjórnar VR. Varaformaður VR, Halla Gunnarsdóttir sem stýrði málþinginu, sagði eitt af stærri verkefnum verkalýðshreyfingarinnar að veita stjórnvöldum aðhald þegar kemur að áhrifum efnahagsstjórnunar á kjör launafólks. Staðan í efnahagslífinu hefur lítið breyst til batnaðar frá undirritun síðustu kjarasamninga, sagði Halla. Fjármagnseigendur kalli eftir niðurskurði og byrðunum er varpað á launafólk, leigjendur og skuldara, eins og það sé náttúrulögmál.

Niðurskurðarstefnan skilar því sem henni er í raun ætlað, það er að verja fjármagnið og vernda það efnahagslega umhverfi sem við búum í, á kostnað launafólks og almennings, sagði Clara Mattei. Hún segir að skýra megi stöðuna í dag með því að skoða hvað gerðist fyrir einni öld. Kapítalísk stjórnvöld hafi tilhneigingu til niðurskurðar og almenningur verður fyrir barðinu á því. Leiðin til að berjast gegn niðurskurði sé að skilja að hann sé innbyggður í kerfið. Það eina sem geti komið í veg fyrir að niðurskurðarstefna nái fótfestu sé pólitísk andstaða frá samfélaginu, frá stéttarfélögunum, frá stjórnmálaleiðtogum sem geti talað móti niðurskurði kapítalismans. Niðurskurðarstefna sé pólitísk hugmyndafræði. Sjá hér myndband af fyrirlestri Clöru Mattei.

Ásgeir Brynjar Traustason, hagfræðingur og ritstjóri Vísbendingar, fjallaði um niðurskurðarstefnu á Íslandi og var það einnig til umræðu í pallborði sem í sátu, auk Ásgeirs, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, Stefán Ólafsson, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Eflingu, Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ og Sveinn Máni Jóhannesson sagnfræðingur. Í pallborðsumræðunum kom meðal annars fram að þegar niðurskurðarstefnu var upphaflega beitt á Íslandi fyrir hundrað árum hafi það meðal annars verið til höfuðs verkalýðshreyfingunni og samvinnuhreyfingunni sem reistu kröfur fyrir hönd almennings um heilbrigðisþjónustu, menntamál, félagsleg réttindi og innviðauppbyggingu.

Birtingarmynd niðurskurðarstefnu á Íslandi var rædd í pallborðinu, að hún birtist í vanrækslu innviða, einkavæðingu, háum stýrivöxtum og kröfunni um að launafólk beri byrðarnar af efnahagsástandinu. Réttindi eignafólks til að eiga fjármagn séu tekin fram yfir réttindi launafólks til að hafa í sig og á. Nýtt fyrirkomulag um fjármögnun hjúkrunarheimila sé líka einn angi niðurskurðarstefnu en með því sé einkaaðilum gert kleift að leigja hinu opinbera húsnæði fyrir hjúkrunarheimili á „markaðsverði“. Vakin var athygli á tillögum um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara sem geti falið í sér niðurbrot á réttindum launafólks. Þá kom fram að niðurskurðarstefna sé stéttatengd, það er að eignastéttin hagnist en vinnandi fólk tapi, en jafnframt kynjuð þar sem konum sé gert að vinna bæði launuð og ólaunuð störf við verri aðstæður og á lakari kjörum.