Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Morgunverðarfundur 23.11

Almennar fréttir - 22.11.2023

Minnum á morgunverðarfund á morgun

Tekjuskerðing foreldra ungra barna í gegnum fæðingarorlof og umönnunarbil getur numið milljónum króna. Þetta sýnir ný greining VR sem verður kynnt á morgunverðarfundi á morgun, fimmtudaginn 23. nóvember. Hækkun leikskólagjalda, sem nýlega var boðuð í nokkrum sveitarfélögum, eykur enn tekjutap barnafólks í gegnum viðkvæman tíma. Þá sýnir nýleg og óbirt rannsókn Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins að hærra hlutfall kvenna en karla tekur launalaust leyfi og tekur barn með í vinnu til að bregðast við frí- og starfsdögum í skólastarfi. Stór hluti foreldra reiðir sig á aðstoð ættingja og vina og einhleypum foreldrum gengur verr að bregðast við frí- og starfsdögum í skólastarfi barnanna sinna samanborið við foreldra í sambúð.

Umræða um starfsemi leikskóla og mikilvægi þeirra hefur verið umtalsverð í kjölfar ákvarðana nokkurra sveitarfélaga að hækka leikskólagjöld fyrir vistun umfram sex klukkustundir. Vísað hefur verið til fjárhags sveitarfélaga, velferðar barna og leikskólans sem vinnustaðar. Lítið hefur farið fyrir umræðu um stöðu foreldra ungra barna á vinnumarkaði en það er viðfangsefni morgunverðarfundar VR fimmtudaginn 23. nóvember kl. 9:00 – 10:30 í sal VR á 9. hæð í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7 og á Teams.

Fundarstjóri er Halla Gunnarsdóttir, stjórnarkona í VR og er dagskrá sem hér segir:

Tekjuskerðing foreldra
Fæðingarorlof, umönnunarbil og skerðing á leikskólastarfi
Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR

Tökum nú næstu hálfa öld í nýjum takti og í liði með börnum
Orðræðugreining á fjölmiðlaumfjöllun um leikskóla
Sunna Kristín Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands

Hvernig gengur?
Að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins

Pallborð

  • Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Arnaldur Grétarsson, faðir
  • Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins
  • Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla