C3A308571

Almennar fréttir - 12.06.2024

Minnum á aukinn orlofsrétt

Í síðustu kjarasamningum var samið um aukinn orlofsrétt fyrir félagsfólk VR sem kemur til töku á orlofsárinu 2025. Við minnum félagsfólk hins vegar á að uppsöfnun þessara orlofsréttinda fyrir næsta orlofsár er á tímabilinu 1. maí 2024 til 30. apríl 2025. Við bendum líka félagsfólki sem hefur lokið framhaldsskólaprófi á að skila inn staðfestingu til að tryggja aukinn orlofsrétt í samræmi við þessar breytingar.

  • Lágmarksorlof er óbreytt, 24 virkir dagar eða tveir orlofsdagar fyrir hvern unninn mánuð á orlofsárinu og orlofslaun eru 10,17% á öll laun.
  • Félagsfólk sem hefur unnið 6 mánuði í sama fyrirtæki og er orðið 22 ára eða hefur unnið í 6 mánuði í sama fyrirtæki eftir framhaldsskólapróf fær 25 orlofsdaga og eru orlofslaun 10,64%. Þetta er aukinn réttur.
  • Eftir 5 ár í sömu starfsgrein er orlof 25 dagar og orlofslaun 10,64%. Þessi réttindi eru óbreytt frá fyrri samningum.
  • Eftir 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein eru orlofsdagar 27 og orlofslaun 11,59%. Þetta er aukinn réttur en hann gilti áður einungis fyrir þá sem höfðu náð 5 árum í sama fyrirtæki.
  • Eftir 7 ár í sama fyrirtæki er orlof 30 dagar orlof og orlofslaun 13,04%. Þetta er aukinn réttur, gilti áður eftir 10 ár í sama fyrirtæki.

Þessar breytingar tóku gildi þann 1. maí 2024. Ef orlof er reiknað í hverjum mánuði og það lagt inn á banka er mikilvægt að fylgjast með því að orlofsprósentan hafi hækkað í samræmi við þessar breytingar en orlofsprósentuna má sjá á launaseðlinum.

Ef orlofsstundir eru birtar á launaseðli þarf að gæta að því að orlofsstundirnar hafi hækkað til samræmis. Orlofsstundir skv. kjarasamningi fyrir 24 daga orlofsrétt eru 17,08 stundir á mánuði fyrir starfsfólk í afgreiðslu en 16,2 klst. fyrir starfsfólk á skrifstofu. Orlofsstundir fyrir 25 daga orlofsrétt eru 17,87 orlofsstundir fyrir starfsfólk í afgreiðslu en 16,94 klst. fyrir skrifstofufólk miðað við fullunninn mánuð skv. kjarasamningi.

Félagsfólk sem lauk framhaldsskólaprófi núna í vor þarf að koma upplýsingum um framhaldsskólaprófið til síns næsta yfirmanns til að fá aukinn orlofsrétt. Réttinn fá þeir þá eftir 6 mánuði í starfi hjá sama fyrirtæki . Þessi réttur á við um öll sem lokið hafa framhaldsskólaprófi áður, þ.e. hver og einn verður að koma upplýsingum um það til atvinnurekanda til að njóta þeirra réttinda.

Það sama á við um félagsfólk sem hefur unnið í 10 ár í sömu starfsgrein en innan við 5 ár í sama fyrirtæki. Skila þarf staðfestingu til atvinnurekanda til að fá aukinn orlofsrétt. Það má til dæmis gera með því að skila inn greiðslusögu félagsgjalda sem sjá má á Mínum síðum á vr.is. eða fá frá öðrum stéttarfélögum sem greitt hefur verið til. Aðilar geta samið sín á milli um fleiri orlofsdaga og hækka þá orlofslaunin með tilliti til þess. Ef samið er um aukin orlofsréttindi umfram það sem fram kemur í kjarasamningi er mikilvægt að það sé gert með skriflegum hætti.

Áður gilti sá réttur að áunnin réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjaðist eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki. Frá og með 1. maí 2024 þarf einstaklingur einungis að vinna í tvö ár hjá nýju fyrirtæki til að öðlast þann rétt sem hann hafði hjá fyrrum atvinnurekanda.