Almennar fréttir - 15.12.2017
#metoo á vinnumarkaði – Veistu hvert þú átt að leita?
Í ljósi umræðu undanfarið um kynferðislega áreitni á vinnumarkaði hvetur VR félagsmenn sína, og aðra starfsmenn á vinnumarkaði, til að leita sér aðstoðar hjá sínu stéttarfélagi ef á þeim hefur verið brotið á þeirra vinnustað.
Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að árétta hlutverk stéttarfélaganna í þeirri byltingu sem hófst á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #metoo. Hlutverk stéttarfélaganna er að standa vörð um réttindi launafólks og gæta hagsmuna félagsmanna sinna og er gríðarlega mikilvægt að þolendur viti að þeir eigi bakhjarl í stéttarfélögunum. Hjá VR starfa sérfræðingar með það eitt að markmiði að aðstoða og veita ráðgjöf til félagsmanna. Á þetta einnig við ef félagsmenn verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað.
VR gerir á næstu dögum ítarlega könnun meðal tíu þúsund félagsmanna sinna þar sem spurt er um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. VR hvetur félagsmenn til að taka þátt í könnuninni en niðurstöðurnar munu veita dýrmæta innsýn í vinnumarkaðinn. Samkvæmt könnun Gallup frá því í nóvember sl. hefur 25% fólks orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti. Hlutfallið er töluvert hærra meðal kvenna, eða 45% samanborið við 15% meðal karla.