Almennar fréttir - 28.09.2020
Láttu það ganga
Guðrún Johnsen, Ph.D.
Efnahagsráðgjafi VR skrifar:
Það var snjöll auglýsingaherferð sem fór af stað í mánuðinum sem Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og önnur samtök atvinnurekenda ýttu úr vör undir yfirskriftinni “Láttu það ganga”. Tilgangurinn var augljós og viðeigandi í núverandi efnahagsástandi; að fá íslenskt launafólk til að beina viðskiptum sínum að íslenskum framleiðendum, kaupa íslenska þjónustu og þannig stuðla að auknum hagsauka fyrir íslenskt atvinnulíf, minnka atvinnuleysi o.s.frv. Það sýndi sig berlega í sumar, þegar þorri fólks varði sumarfríinu sínu á Íslandi, innlend eftirspurn jókst og sem betur fer minnkaði atvinnuleysið a.m.k. um stundarsakir. Nú þegar komin er reynsla á skilvirkni sóttvarna á Íslandi má álykta að kórónukreppan sé nú fyrst og fremst eftirspurnarkreppa, þó í upphafi hafi bæði gefið á framboð og eftirspurn. Íslenskir ferðamenn ná að vega u.þ.b. ¾ upp á móti af þeim tekjum sem áður bárust með erlendum ferðamönnum, svo eitthvað vantar uppá til að viðhalda innlendri eftirspurn, fyrra framleiðslustigi og koma hagvexti í gang að nýju.
Áhrif lágmarkslauna á þjóðartekjur og atvinnustig – gamlar og nýjar rannsóknir
Það er ekki auðvelt að skýra út í stuttu máli hvernig vinnumarkaðurinn virkar –samband milli atvinnustigs, lágmarkslauna, sveigjanleika vinnuafls, verðbólgu, starfsmannaveltu, skattlagningar og hagvaxtar er býsna flókið og háð því hvaða kraftar toga mest miðað við hvar við erum stödd í hverjum þætti fyrir sig, sem og hvar við erum stödd í hagsveiflunni sjálfri. Gamalgrónar rannsóknir sem margir grípa til, þ.e. þeir sem ekki eru sérlega vel uppfærðir í fræðunum, gera ráð fyrir því að hærri lágmarkslaun leiði ávallt til hærra atvinnuleysis.1 Þessar rannsóknir eru þó flestar gamlar, fræðilegar og byggðar á stærðfræðilíkönum sem gera ráð fyrir fullkominni samkeppni á markaði (bæði vinnumarkaði og vörumarkaði) og fleiri hliðarskilyrðum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Óhætt er að segja að áhrif lágmarkslauna á atvinnustig er eitt það samband sem hefur verið mest rannsakað innan vinnumarkaðshagfræðinnar. Þeir sem hafa verið efstir í virðiskeðju hagfræðinga hvað þetta varðar síðustu 30 ár, eru án efa Alan Krueger og David Card við Princeton háskóla, sem gáfu út merkilegan pappír árið 1994. Þeir skoðuðu áhrif hækkunar lágmarkslauna í New Jersey fylki, á starfsfólk hamborgarastaða sérstaklega, með því að bera saman atvinnustig á hamborgarastöðum milli New Jersey og Pennsylvaníu, fyrir og eftir hækkun. Í stuttu máli hafði hækkunin engin áhrif á atvinnustigið og lítið sem ekkert á hækkun verðs á hamborgurum.2
Til að lækna eftirspurnarkrísu þurfum við að leggja okkur eftir því að finna rannsóknir sem sýna hvaða efnahagsúrræði virkuðu best í slíku ástandi. Nú liggur fyrir tillaga SA þess efnis að fresta hækkunum lágmarkslauna, til að hækka atvinnustigið, að sögn forsvarsmanna þeirra. Nauðsynlegt er að vandaðar rannsóknir liggi þessari ákvörðun til grundvallar, ef ekki á að fara illa; kreppan dýpki, samkeppnisstaða stærri atvinnurekenda batni á kostnað minni, o.s.frv.
Lögbundin lágmarkslaun í Bandaríkjunum eru afsprengi stefnumótunar Franklin D. Roosevelt frá kreppunni miklu, og voru fyrst leidd í lög með “Fair Labor Standard Act” árið 1938. Það hefur margsýnt sig í rannsóknum að hækkun lægstu launa skilar sér betur í aukinni eftirspurn í hagkerfinu heldur en hækkun hæstu launa. Nýleg rannsókn frá seðlabanka Boston áætlar að jaðarneysluhneigð lágtekjufólks (þeirra sem eru í lægstu tíund launadreifingar) er 10 sinnum meiri en þeirra sem eru í hæstu tíundinni.3 Nýrri raunreynslurannsóknir, m.a. ein sem nýtti sér náttúrulega tilraun í Arizona þegar kosið var um hækkun lágmarkslauna tvisvar frá árinu 2006-2017, sýna að 1% hækkun lægstu launa, leiddi til 1,13% aukningar í þjóðartekjum á mann í Arizona, á tímabilinu sem innihélt fjármálakreppuna miklu.4
Ólíkir hagsmunir stærri og minni atvinnurekenda
Við vitum að hækkuð lágmarkslaun eru líkleg til að hafa neikvæð áhrif á ráðningar minni fyrirtækja. Stór fyrirtæki eru hins vegar líklegri til að bregðast við aukinni eftirspurn með ráðningum á nýju fólki, þrátt fyrir hækkuð lágmarkslaun.5 Þar sem við vitum líka að hækkuð lágmarkslaun hafa jákvæð áhrif á heildareftirspurn í þjóðfélaginu, verður það að teljast ákjósanleg ráðstöfun til að mæta þeim bráðavanda sem Íslendingar eru staddir í um þessar mundir.
Stærri fyrirtæki hagnast hins vegar meira á því ef launaójöfnuður eykst innan fyrirtækja þeirra heldur en lítil fyrirtæki.6 Samkeppnisstaða stærri fyrirtækja styrkist því hlutfallslega til langs tíma gagnvart litlum fyrirtækjum, ef lágmarkslaun eru ekki hækkuð.7 Það er vissulega óheppilegt, í ljósi þessa, að atkvæðisréttur innan SA tengist stærð fyrirtækja.
Breytt og stighækkandi skattlagning á fyrirtæki ætti að vera baráttumál lítilla og meðalstórra atvinnurekenda, en ekki að halda aftur af launahækkunum lágmarkslauna, sem auka heildareftirspurn í hagkerfinu. Slíkt myndi bæta samkeppnisstöðu þeirra og auka líkurnar á að þau geti ráðið til sín fólk, þrátt fyrir hóflega hækkun lágmarkslauna.
Óveruleg áhrif á verðbólgu
En hvað með verðbólguna? Fer hún ekki á skrið ef lágmarkslaun eru hækkuð á þessum tímapunkti? Rannsókn frá 2004 sem fór yfir 20 ritrýndar ritgerðir um áhrif hækkunar lágmarkslauna á atvinnustig og verðbólgu sýndi að 10% hækkun lágmarkslauna leiddi að jafnaði til 4% hækkunar á matarverði á veitingastöðum; er óveruleg eða um 0.4% á almennum vörumarkaði.8
Vandaðar rannsóknir starfsmanna Seðlabanka Íslands frá 2011 sýna að lítil eftirspurn í hagkerfinu leiðir heldur til þess að íslensk fyrirtæki lækki verð en hækki. Efnahagsástandið í dag bendir því til þess að hækkun lágmarkslauna munu hafa lítil ef nokkur áhrif á verðlag á markaði vegna samdráttar í heildareftirspurn sem orðið hefur. Fall íslensku krónunnar ætti þó að geta stuðlað að aukinni verðbólgu; en litlar líkur eru á því þar sem Seðlabankinn býr yfir gríðarlegum gjaldeyrisvaraforða.9
Eru miðin dauð eða er verið að leggja árar í bát?
Það er alveg ljóst að miðin eru ekki dauð. Íslenski ferðamaðurinn og íslenski neytandinn hafa nú þegar vegið að stórum hluta upp á móti töpuðum tekjum vegna erlendra ferðamanna sem ekki komu þetta árið. Velta íslenskrar verslunar frá janúar-ágúst 2020 jókst um 7% miðað við sama tíma í fyrra þegar allir ferðamennirnir voru hér enn. Velta stórmarkaða hefur aukist um 11%, en hefur hins vegar dregist saman um 6% í fataverslun, og gjafavöruverslanir finna sannarlega mest fyrir samdrætti sem er um 23%.10 Ljóst er að 8,9% vinnuaflsins er með 25-55% lægri ráðstöfunartekjur en á sama tíma og í fyrra, vegna atvinnuleysis, og eru ýmist á tekjutengdum - eða grunnatvinnuleysisbótum.
Það heyrir upp á okkur sem höfum vinnu að njóta sem mest þess góða sem Ísland hefur upp á að bjóða og versla við íslensk fyrirtæki. Ætla íslenskir atvinnurekendur sem njóta góðs af ástandinu að leggja árar í bát eða hjálpa okkur hinum við að láta þetta ganga?
______________________________________________________________