Almennar fréttir - 24.10.2017
Kynbundinn launamunur innan VR 11,3%
Kvennafrídagurinn, 24. október, er helgaður baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Þennan dag árið 1975 lögðu íslenskar konur niður vinnu og söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur til að krefjast jafnrar stöðu karla og kvenna. VR hefur á undanförnum árum og áratugum lagt mikla áherslu á baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna og hefur margt áunnist. En betur má ef duga skal og mikilvægt að við höldum baráttunni áfram.
Kynbundinn launamunur
Kynbundinn launamunur innan VR er 11,3% samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2017. Þessi munur jafngildir því að konur í VR vinna launalaust í rúman mánuð á árinu.
Munurinn á heildarlaunum karla og kvenna skv. launakönnun VR 2017 er 15% en þá er ekki búið að taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á launin; aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vinnutími og hvort viðkomandi vinni vaktavinnu. Stærsti áhrifaþátturinn er vinnutíminn en vinnutími karla er lengri en kvenna, 44,5 stundir á viku á móti 42,1 stund skv. launakönnun 2017, jafnvel þó eingöngu sé verið að skoða starfsfólk í fullu starfi.
Þegar tekið er tillit til þessara þátta er munurinn á launum karla og kvenna 11,3% árið 2017. Þessi munur er kynbundinn launamunur. Sjá nánari umfjöllun hér.